Gróðursettu 100 tré á 100 ára afmæli
Soroptimistaklúbbur Keflavíkur fyrstur félagasamtaka til að gróðursetja í Njarðvíkurskógum.
Soroptimistaklúbbur Keflavíkur gróðursetti á stofndegi klúbbsins 5. júní sl. alls 100 tré í Njarðvíkurskógum í tilefni af 100 ára afmæli Soroptimista. Klúbburinn er fyrstur félagasamtaka til þess að fá úthlutað reit í skóginum til gróðursetningar, að sögn Berglindar Ásgeirsdóttur skrúðgarðyrkjumeistara hjá Reykjanesbæ en uppbygging skógarins hefur verið í höndum Reykjanesbæjar og Skógræktarfélags Suðurnesja, sem eru samstarfsaðilar Soroptimistaklúbbs Keflavíkur við gróðursetninguna. Auk uppgræðslu gróðurs hafa útvistar- og leiksvæði verið gerð í skóginum ásamt gróðurkössum þar sem íbúum gefst kostur á að rækta eigin matjurtir. Fleiri félagasamtök hafa líst áhuga á að gróðursetja í Njarðvíkurskógum.
Að sögn Svanhildar Eiríksdóttur formanns Soroptimistaklúbbs Keflavíkur var fyrsti soroptimistaklúbburinn í heiminum stofnaður í Oakland í Kaliforníu í október 1921. „Í klúbbnum voru 80 konur en Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því besta sem völ er á. Fyrsta verkefni Soroptimista var að bjarga rauðviði sem hafði næstum verið útrýmt og síðan hefur gróðursetning rauðviðar verið eitt af verkefnum Soroptimista í Kaliforníu. Í tilefni af 100 ára afmælinu hefur Soroptimistahreyfinging mælst til þess að allir klúbbar gróðursetji tré til þess að minnast tímamótanna, en að sjálfsögðu var ætlunin að halda upp á tímamótin með miklum veisluhöldum í Kaliforníu. Kórónuveirufaraldurinn kom hins vegar því miður í veg fyrir það,“ segir Svanhildur.
Eitt af verkefnasviðum Soroptimista eru umhverfismál og líkt og hjá systrum í Kaliforníu hefur gróðurrækt verið áberandi í starfsemi klúbbanna. „Systur í Keflavíkurklúbbi hafa lengi gróðursett í lundi við Voga en nú höfum við ákveðið að færa okkur um set í Njarðvíkurskóga og taka þátt í uppbyggingu þar. Með gróðursetningunni viljum við Keflavíkursystur ekki aðeins minnast tímamótanna í starfsemi Soroptimista heldur taka þátt í uppbyggingu skóglendis og grænna svæða í okkar samfélagi sem er ekki síður mikilvæg fyrir kolefnisbindingu í nálægð við alþjóðaflugvöll,“ segir Svanhildur að lokum og vildi færa styrktaraðilum við verkefnið bestu þakkir en þeir voru:
HS Orka styrkti klúbbinn við trjákaup, HH steinar grófu holur fyrir stærstu trén og Íslenska gámafélagið gaf moltu til gróðursetningarinnar.