Gróðureldarnir: Þyrluþjónustan býður fram aðstoð
Þyrluþjónustan hefur ákveðið að bjóða Slökkviliði Grindavíkur endurgjaldslausa aðstoð, þar sem Landhelgisgæslan hefur ítrekað synjað um þyrluaðstoð í baráttu við gróðureldanna austan við Kleifarvatn. Mbl.is greinir frá þessu.
Sérstök fata verður notuð til að freista þess að slökkva gróðureldana. Vatn verður sótt í Kleifarvatn og ausið yfir eldinn, sem blossað hefur upp ítrekað frá því um helgina. Slökkvliðið hefur þurft að leggja á sig hátt í þriggja tíma göngu í 420 metra hæð í hvert skipti til að komast að eldunum. Hefur það notið aðstoðar björgunarsveitarmanna úr Grindavík og nú í morgun fór hópur úr vinnuskólanum með slökkviliðsstjóranum á staðinn. Barist var við eldana í alla nótt, öðru sinni frá því um helgina.
Slökkvilið Grindavíkur hefur ítrekað óskað eftir aðstoð Gæslunnar, sem mat það svo að eldarnir ógnuðu hvorki mannvirkjum né mannslífum. Flugtímar Gæslunnar væru komnir framyfir áætlun samkvæmt fjárveitingum sem hún fær, hefur mbl.is eftir forsvarsmanni Landhelgisgæslunnar.
--
Mynd/Þyrluþjónustan - Ein af vélum Þyrluþjónustunnar á flugi.