Gróðrastöðin Glitbrá stækkar
Gróðrastöðin Glitbrá við Stafnesveg 22 í Sandgerði hefur verið starfrækt undanfarin átta ár við góðan orðstýr. Eigendur hennar eru Gunnhildur Ása Sigurðardóttir, garðyrkjukona, og Þuríður Guðrún Magnúsdóttir.„Við seljum eingöngu tegundir sem við höfum prófað og hafa reynst vel suður með sjó. Við ræktum megnið af öllum trjám og runnum sjálfar og öll sumarblómin“, segir Ása en blaðamanni er í sömu andrá litið á ægifagurt perutré sem stendur á miðju gólfi í gróðurhúsinu. Ása segir að hún hafi fengið nóg af perum af því í fyrra og að þær hafi verið gómsætar.„Fyrirhugað er að setja upp 300 fermetra glerhús í sumar en við erum nýbúnar að bæta við tveimur 50 fermetra plasthúsum. Það má því segja að við séum að færa út kvíarnar því nú, þegar við höfum meira páss, getum við ræktað fleiri tegundir og meira magn. Þegar glerhúsið er tilbúið munum við hafa opið allt árið. Við verðum þá með ýmis konar námskeið og ætlum að bjóða upp á styttur, skreytingar og gott úrval af gjafavöru“, segja samstarfskonurnar um leið og þær munda garðslönguna og róta í moldinni.Þess má geta að opnunartími gróðrastöðvarinnar er frá kl. 10-21 alla daga og frá kl. 13 til 18 á sunnudögum. Þeir sem vilja fá upplýsingar um gróðrastöðina og garðrækt almennt geta haft samband við Ásu í síma 868-1879 eða Þúrý í síma 868-8405.