Grjónagrauturinn alltaf vinsælastur
- Einfaldur og bragðgóður matur rennur alltaf ljúflega niður.
„Grjónagrauturinn er mjög vinsæll og það er alltaf beðið um hann, jafnvel þó að boðið hafi verið upp á hann í vikunni áður. Öll þessi ár þá hefur hann verið toppurinn,“ segir Sigríður Hrönn Guðmundsdóttir, matráður á heilsuleikskólanum Heiðarseli í Reykjanesbæ. Hún hefur séð um matseldina á Heiðarseli frá því leikskólinn opnaði fyrst fyrir 25 árum.
Sigríður segir börnin dugleg að borða nær allan mat. „Ef maturinn er nógu einfaldur og bragðgóður rennur hann ljúflega niður.“ Óvinsælasti maturinn á Heiðarseli er lifur en þó er boðið upp á hana tvisvar sinnum yfir veturinn.
Árið 2004 var Heiðarseli breytt í heilsuleikskóla en þá þegar var byrjað að leggja áherslu á að bjóða upp á hollan mat. „Við tókum allar unnar kjötvörur, eins og til dæmis bjúgu og kjötfars, af matseðlinum árið 1994 og svo fínlöguðum við aðeins árið 2004 en það þurfti litlu að breyta.“ Á Heiðarseli er boðið upp á hollan heimilismat, svo sem kjöt, kjötsúpu, fisk, kjöt í karrý og matarmikinn spónamat. „Við pössum upp á að maturinn sé vel samsettur og innihaldi hæfilega mikið af fitu, kolvetnum og próteini.“
Síðustu viku fyrir sumarfrí og jólafrí fá börnin á Heiðarseli að velja hvað er í matinn. „Þá er grjónagrauturinn alltaf valinn, sem og pítsur og hamborgarar og auðvitað allt með hollu ívafi.“