Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gripinn við að dansa undir stýri
Laugardagur 22. júní 2019 kl. 11:31

Gripinn við að dansa undir stýri

Stórundarlegt aksturslag bifreiðar vakti athygli lögreglumanna á Suðurnesjum þegar þeir voru við hefðbundið eftirlit í fyrrakvöld. Bifreiðinni var ekið kantanna á milli, rásandi út um allan veg, í átt að flugstöðinni. Ökumaðurinn sveiflaði höndunum ákaft og var með aðra út um gluggann bílstjóramegin.
Þegar lögregla ræddi við hann um ógætilegan akstur kvaðst hann hafa verið að dansa við tónlist sem hann var að hlusta á meðan á akstri stóð. Hann brást afar illa við athugasemdum lögreglu og reyndist erfitt að ræða við hann. Hann róaðist þó þegar honum var komið í skilning um að hann ætti að hafa hendur á stýri í akstri því annað gæti skapað mikla hættu í umferðinni. Ók hann svo prúður á brott með báðar hendur á stýri.

Bifreið valt á Djúpavatnsleið á Suðurnesjum í fyrradag. Þrennt var í bifreiðinni og sluppu þau ómeidd. Ökumaðurinn hafði verið að aka upp brekku og hemlað með þeim afleiðingum að bifreiðin rann út af og valt. Ekkert tjón varð á bifreiðinni en hún sat kyrfilega föst í aur utan vegar og þurfti dráttarbíl til að ná henni upp.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024