Grindvíkingur ársins ákaft hylltur á þrettándagleði
Matthías Grindvík Guðmundsson var nýlega valinn Grindvíkingur ársins 2011 og var hann heiðraður á þrettándagleði Grindavíkurbæjar sem fram fór í gær. Þetta er í þriðja sinn sem Grindavíkurbær stendur fyrir útnefningu á manni ársins í bæjarfélaginu.
Matthías er vel að þessum heiðri kominn og sýndi sig það best að þegar hann var kallaður á svið þá risu gestir þrettándagleðinnar, um 300-400 manns, á fætur og hylltu Matthías eða Matta húsvörð eins og hann er best þekktur innan bæjarfélagsins. Bæjarbúar klöppuðu Matta ákaft lof í lófa.
Bæjarstjóri Grindavíkur, Róbert Ragnarsson, sagði af þessu tilefni að hann hefði kynnst Matta húsverði, fyrir 15 árum þegar hann var leiðbeinandi við grunnskólann og strax fundið hversu hlýlegur og natinn hann var við nemendur skólans. Þá sagði Róbert að Matthías hefði sagt sér að hann hefði tekið á móti nokkrum börnum sem sjúkraflutningamaður í 24 ár en þess má geta að eitt þeirra var skírt í höfuðið á honum; Matthildur.
Matthías lét af störfum sem húsvörður Grunnskólans eftir 30 ára starf og hefur hann því sinnt mörgum kynslóðum Grindvíkinga bæði í starfi sínu sem húsvörður í Grunnskólanum og einnig sem sjúkraflutningamaður. Matthías var klökkur og þakkaði fyrir viðurkenninguna og sagði að endingu: „Ég elska ykkur öll.“
Nánar um málið á heimasíðu Grindavíkurbæjar.
VF-Mynd/JJK