GRINDVÍKINGUM FJÖLGAR
Suðurnesin eru orðin eftirsóttur staður til búsetu, enda fasteignaverð mun lægra en á höfuðborgarsvæðinu. Gott samgöngukerfi, nálægð við höfuðborgina og öruggt samfélag gera Suðurnesin að vinsælu íbúasvæði. Vegna mikillar eftirspurnar á árinu er svo komið að lóðaskorts er farið að gæta hjá stærstusveitarfélögunum á Suðurnesjum.Grindvíkingum hefur t.a.m. fjölgað mikið á árinu sem er að líða, eða um2,35% sem er tvöföld fjölgun á landsvísu. Grindvíkingar eru nú 2.223 talsins, en árið 1999 er fyrsta árið sem íbúafjöldi í Grindavík fer yfir 2.200 manns. Til samanburðar má nefna að fjölgun íbúa í Reykjavík er aðeins 1,33 % og á öllu höfuðborgarsvæðinu 2,12%. Grindavíkurbær hefur úthlutað öllum lausum lóðum í sveitarfélaginu, alls um 35 íbúðalóðum auk 27 íbúða í fjölbýlishúsum. Fyrirséð er að enn mun fjölga í sveitarfélaginu og 40 lóðum verður úthlutað í nýju íbúðahverfi fljótlega á næsta ári. Einar Njálsson, bæjarstjóri Grindavíkur, segir atvinnuástand í Grindavík það gott að sveitarfélagið hafi metnað til að fjölga verulega íbúum á næstu árum. Á næsta ári verður grunnskólinn einsetinn og nýr leikskóli tekinn í notkun, þjónusta í Grindavík verður þá með besta móti.