Grindvíkingum fækkar um 35,8%
Íbúum Suðurnesja hefur fækkað um 1,3% á tímabilinu 1. desember 2023 til 1. ágúst 2024 eða um 427 íbúa. Í Reykjanesbæ hefur fjölgað um 670 íbúa. Íbúum Grindavíkurbæjar fækkar um 1.332 á tímabilinu eða um 35,8%. Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri samantekt Þjóðskrár á íbúafjölda á Íslandi eftir sveitarfélögum.
Samtals voru íbúar Suðurnesja 32.186 talsins um mánaðamótin. Í Reykjanesbæ búa 23.961. Íbúar Suðurnesjabæjar eru 4.136. Í Sveitarfélaginu Vogum voru búsettir 1.701. Í Grindavík eru 2.388 skráðir með lögheimili. Stærstur hluti þess hóps er hins vegar búsettur í öðrum sveitarfélögum en aðeins er búið í 20-30 húsum að jafnaði í Grindavík þessar vikurnar.
Hlutfallsleg fjölgun hefur verið mest í Sveitarfélaginu Vogum á tímabilinu. Þar hefur íbúum fjölgað um 8,6% frá því 1. desember. Fjölgunin í Reykjanesbæ er 2.9% á tímabilinu og 2,5% í Suðurnesjabæ. Þá fækkar Grindvíkingum um 35,8% á umræddu tímabili. Fækkunin er upp á 1.332 einstaklinga.
Miðað við að íbúum Suðurnesja fækki um 427 manns á tímabilinu er ljóst að töluverður hópur Grindvíkinga hefur flutt út af svæðinu.