GRINDVÍKINGAR ÓÁNÆGÐIR MEÐ ÞRÓUN LÖGREGLUMÁLA
Niðurfelling bakvakta lögreglumanna í Grindavík, frá og með 1. mars, hefur vakið óánægju Grindvíkinga og í vikunni hafnaði dómsmálaráðherra tilboði bæjarráðs Grindavíkur um að greiða bakvaktirnar í mánuð á meðan leitað væri annarra leiða til sparnaðar. Víkurfréttir höfðu samband við nokkra aðila og reyndu að fá skýra mynd af þróun mála. Sigurður Ágústsson, aðst.yfirlögr.þj., sagði breytinguna vera eftirfarandi. „Breytingin er með þeim hætti að á milli kl. 01:00 til kl. 09:00 virka daga og milli kl. 07:00 og 13:00 um helgar sinnir lögreglan í Keflavík útköllum í stað þess að lögreglumenn, staðsettir í Grindavík, á bakvakt séu kallaðir til. Þá þarf að breyta núverandi fyrirkomulagi neyðarlínunnar (112) en hingað til hafa starfsmenn þess fyrirtækis hringt í lögregluna í Grindavík sem boðað hefur sjúkrabifreiðar eða slökkvilið á vettvang.“Jón Eysteinsson sýslumaður sagði sparnað nauðsyn og málið afgreitt. „Þetta er aðeins einn af mörgum liðum í sparnaði embættisins. Embættið hefur farið fram úr fjárlögum og þarf að gera breytingar til sparnaður. Ég lít svo á að þarna sé síður en svo um þjónustuskerðingu að ræða. Í stað þess að hringt sé í sofandi lögreglumann í Grindavík sinnir næturvaktin útkallinu frá stöðinni í Keflavík.“ Hörður Guðbrandsson, bæjarfulltrúi í Grindavíkur var ósáttur með niðurfellingu bakvaktanna. “Þetta lítur illa út enda minnkun á þjónustu við bæjarbúa. Á mánudag átti bæjarráð og bæjarstjóri fund með Þorsteini Pálssyni, dómsmálaráðherra, þar sem farið var yfir stöðu lögreglumála í Grindavík og ítrekuðum við tilboð okkar þess efnis að við bæjarstjórn borgaði bakvaktirnar í mánuð á meðan leitað yrði annarra lausna. Því var algjörlega hafnað. Á þriðjudag áttum við fund með Jóni Eysteinssyni, sýslumanni, og Þóri Maronssyni,yfirlögr.þj., þar sem við mótmæltum skertri þjónustu við Grindvíkinga harðlega en sýslumaður neitaði að breyta ákvörðun sinnu og hélt þeirri fásinnu fram að um bætta þjónustu væri að ræða. Hann sagði að með þessu mættu alltaf tveir lögregluþjónar úr Keflavík á vettvang í stað eins syfjaðs bakvaktarmanns úr Grindavík. Við teljum reynslu annarra bæjarfélaga, t.d. Sandgerðis og Garðs, sýna að um mun lengri viðbragðstíma verður að ræða. Jafnframt lögðum við fram þá spurningu hvort frekari niðurskurður á starfsemi lögreglunnar í Grindavík eða sýslumannsskrifstofunnar þar væri í farvatninu en sýslumaður kvað svo ekki vera. Persónulega tel ég þessa breytingu ekki hafa verið gerða í sparnaðarskyni enda dýrara að senda lögreglubifreið í 2 eftirlitsferðir, frá Keflavík til Grindavíkur, á hverri næturvakt en að borga bakvaktirnar.“Einar Njálsson, bæjarstjóri í Grindavík, sagði bæjarstjórn ósátta við stöðuna. „Við teljum að með þessum skipulagsbreytingum muni löggæsla minnka og öryggi borgaranna ekki sama og áður. Bæjarráð telur þessi málalok ekki viðunandi vonum við að reynslan af breyttu skipulagi verði ekki of dýru verði keypt áður en hlutunum verður komið í viðunandi horf á ný.“jak