Grindvíkingar mótmæla harðlega aðför ríkisstjórnarinnar að sjómönnum
„ Aðalfundur Sjómanna og vélstjórafélags Grindavíkur mótmælir því harðlega að ríkisstjórnir Íslands skulu alltaf ráðast með lagasetningum á sjómenn.
Engu skiptir hvort þeir eru að sækja rétt sinn til að ná kjarasamningum eða að halda kjörum sínum sem sjómannaafslátturinn er og hefur verið í meira en hálfa öld, en ekki er hróflað við ríkistryggðum lífeyrissjóði opinberra starfsmanna né skattfrjálsum dagpeningum og ökutækjastyrkjum," segir í harðorðri ályktun sem samþykkt var á fjölmennum aðalfundi félagsins sem haldinn var í gærkvöldi, þriðjudagskvöld 29. desember, á Sjómannastofunni Vör þar í bæ. Magnús Sigurðsson formaður SVG bar upp tillöguna í lok fundarins sem var samþykkt einróma.
Að loknum hefðbundnum aðalfundarstörfum flutti Sævar Gunnarsson, formaður Sjómannasambands Íslands, erindi um helstu málefni sjómanna á árinu sem er að líða og meðal annars rakti hann sögu sjómannaafsláttarins og fór yfir þær athugasemdir sem stjórn Sjómannasambands Íslands sendi frá sér vegna skattafrumvarps ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var á alþingi nú rétt fyrir jól.
Sævar sagði það væri ótrúlegt til þess að vita að það væru forystumenn annarra launþegahópa, svo sem opinberra starfsmanna, sem alltaf rækju upp ramakvein þegar imprað er á að draga þyrfti saman í þjóðfélaginu og þá væri fyrsta hugsunin sí og æ að benda á svokallaðan sjómannaafslátt sem samþykktur var lögum 1954 þegar þáverandi ríkisstjórn liðkaði fyrir kjarasamningum í kjaradeilu sem þá stóð yfir milli sjómanna og útvegsmanna og kominn var í strand.
Rifjaði Sævar upp þessa sögu fyrir fundarmenn en í þessum lögum númer 41 frá 1954 var lögfestur hlífðarfata- og fæðisfrádráttur en þó ekki allra í áhöfn togaranna.
„Rökin sem færð voru fyrir frádrættinum voru að hann væri vegna kostnaðar sjómanna af hlífðarfötum umfram aðra launþega. Fæðisfrádrátturinn tók aftur á móti einungis til þeirra sjómanna á fiskiskipum sem þurftu að sjá sér fyrir fæði sjálfir. Með lögum númer 37 frá 1957 var hlífðarfatafrádráttur aukinn þannig að hann tók til allra skipverja á togurum, en þá var tekinn upp sérstakur frádráttur sem náði til allra skipverja á togurum, auk þess sem tekinn var upp sérstakur frádráttur sem náði til allra lögskráðra fiskimanna. Þessi breyting var einnig gerð í tengslum við kjarasamninga og einnig rökstudd með því að á þeim tíma var erfitt að manna flotann og talið að fiskiskipaflotinn væri þá nálægt þriðjungi mannaður erlendum sjómönnum," sagði Sævar og bætti við að árið 1967 hafi hlífðarfatafrádrátturinn og sérstaki frádrátturinn látinn ná til allra lögskráðra sjómanna þ.e. líka til annarra en fiskimanna.
En þar með er ekki öll sagan sögð því 1972 var tekinn upp nýr frádráttur, 8% af launum fiskimanna sem síðan var ári seinna látinn ná til allra hlutaráðinna landmanna sem þá fengu einnig frádráttinn sem á undan var kominn.
„Árið 1978 voru allt sem á undan var komið sameinað í einn sjómannafrádrátt en fæðisfrádráttur fyrir sjómenn á fiskiskipum hélst óbreyttur en 1985 var fiskimannafrádráttur fyrir lögskráða sjómenn og hlutaráðandi landmenn látinn taka til sjómannstarfa um borð í skipum sem ekki voru fiskiskip.
Með lögunum númer 49 árið 1987 var þessum frádráttarliðum steypt saman og í stað þeirra kom einn sjómannaafsláttur en rökin í frumvarpinu að þessum lögum voru eftirfarandi:
1. Kostnaður sjómanna vegna hlífðarfata umfram aðra launþega.
2. Ívilnun til þeirra sem sáu sjálfum sér fyrir fæði.
3. Sérstök launahækkun til sjómanna eða hluta þeirra í tengslum við kjarasamninga.
4. Kostnaður vegna langra fjarvista frá heimili,"
sagði Sævar og benti í lokin á að á hinum Norðurlöndunum væru slíkar skattaívilnanir umtalsvert hærri en hér á landi auk þess sem stjórn Sjómannasambands Íslands hugnast ekki fjölþrepaskattkerfi því fyrr eða síðar leiðir það til eftir á greiðslna sem munu koma mjög hart niður á sjómönnum þar sem tekjuumhverfi þeirra er mjög sveiflukennt samanber hvað gerðist oft á árum áður þegar staðgreiðslukerfið var ekki enn komið til sögunnar. Sævar sagði að hvað sem öllum árásum á launakjör sjómanna líður eins og nú er komið á daginn þá stefnir í harðvítugar deilur milli samningsaðila því þessi tekjuskerðing verður sótt til útgerðarinnar þegar samningar verða lausir um áramótin 2011.
Nánar má sjá um fundinn á heimasíðu félagsins www.svg.is
Frá þessu er greint á vef Grindavíkurbæjar, www.grindavik.is