Grindhvölum sökkt í Garðsjónum
Félagar í Björgunarsveitinni Ægi unnið fram í myrkur að því að farga hræjum af grindhvölum sem drápust í Útskálafjöru í gærkvöldi og nótt. Hræin eru dregin út í Garðsjó þar sem þeim er sökkt. Verkefnið er tímafrekt og er ekki lokið. Haldið verður áfram með það á flóði á morgun.
Sverrir Daníel Halldórsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, segir í skriflegu svari sem mbl.is birti að 14 dýr hafi verið í fjörunni þegar sérfræðingar Hafrannsóknarstofnunar komu á vettvang, þar af tveir kálfar. Samanstóð hópurinn af 11 kúm og þremur törfum og reyndist stærsti tarfurinn vera 459cm langur og stærsta kýrin 439 cm. Erfðasýni voru tekin úr dýrunum og gerðar mælingar til að meta holdafar þeirra og þá voru einnig tekin blóðsýni til bakteríu- og veiruskimunar.
Myndirnar með fréttinni voru teknar nú í kvöld og einnig í nótt þegar björgunaraðgerðir stóðu yfir. Myndirnar í kvöld tók Hilmar Bragi en myndirnar frá því í nótt eru frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.