Grindavíkurvegur illa farinn eftir veturinn
Þriggja bíla árekstur varð á Grindavíkurvegi á annan í páskum þegar einn bíll fór á öfugan vegahelming á veginum. Vegurinn er ekki að koma vel undan vetri og eru holur á víð og dreif, allan veginn. Kristín María Birgisdóttir, formaður bæjarráðs Grindavíkur sagði í samtali við Víkurfréttir að nú sé komið fjármagn að upphæð sem nemur tvöhundruð milljónum sem er eyrnamerkt umbótum á veginum. „Áður en hægt er að fara í þær umbætur eins og að aðskilja aksturstefnur, þá þurfum við að hanna framkvæmdina fyrst og bjóða hana út og vonandi getum við byrjað á því öllu saman í haust.“ Kristín segir að það fjármagn ætti að duga til þess að klára fyrsta áfangann sem er aðskilnaður akstursstefna frá Seltjörn að Bláa lóns afleggjaranum. „Við vorum búin fyrir slysið að óska eftir fundi með Vegagerðinni til að taka stöðuna, fylgja verkefnum eftir og athuga hvort að allt væri ekki í farvegi. Næst á dagskrá hjá okkur er að funda með Vegagerðinni um málið.Vegurinn er að koma mjög illa undan vetrinum og það þarf að laga hann fyrir sumarið, Reykjanesbrautin og vegir innanbæjar eru líka að koma illa undan vetrinum. Það þarf að hafa það í forgangi að laga holurnar, því þær eru hættulegar.“
Vegagerðin áformar að setja hraðamyndavélar á Grindavíkurveg og áformað er að taka fjörtíu milljónir til verksins af þegar samþykktu fé til endurbóta á Grindarvíkurvegi. Kristín María segir að þau séu sammála þeirri framkvæmd en það sé alls ekki vilji fyrir því að það séu teknar fjörtíu milljónir af þeim tvöhundruð sem nún þegar er búið að samþykkja til úrbóta á veginum. „Það hefur verið gerð úttekt á því að hraðakstur á Grindavíkurvegi er mikill miðað við aðra vegi, en það er ekki bara hraðakstur sem er að skapa hættu, heldur líka hvað margir keyra hægt. Það skapar líka hættu með framúrakstri.Við höfum sagt að forgangurinn er að aðskilja aksturstefnurnar og bæta veginn. Það eykur öryggi að draga úr hraðakstri en vegurinn er slæmur og það þarf að laga hann.“