Grindavíkurvegur breikkaður og vegrið sett á miðju
Framkvæmdir við breikkun Grindavíkurvegar standa nú yfir. Uppbygging breikkunarinnar fer fram í áföngum og verður vegurinn breikkaður beggja vegna. Vegrið verður sett á miðjan veginn í síðari áföngum framkvæmdarinnar.
„Þetta er gert til að viðhalda sömu miðlínu og áður í veginum og viðhalda eðlilegum vatnshalla á veginum. Er þetta einnig gert vegna þess pláss sem vegrið mun taka í miðju vegarins,“ segir á vef Grindavíkurbæjar.
Athygli er vakin á að töluverð breyting verður á ásýnd og notkun vegarins að framkvæmd lokinni. Til að mynda verður inn- og útkeyrsla útskotum á veginum aðeins möguleg úr annarri aksstursstefnu á hverjum stað.
Áður en framkvæmdir hófust var unnin fornleifakönnun sem hefur fengið blessun Minjastofnunar.