Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Grindavíkurnefndin tekur ákvörðun um opnun Grindavíkur
Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, ræðir við fundargesti.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
fimmtudaginn 10. október 2024 kl. 06:07

Grindavíkurnefndin tekur ákvörðun um opnun Grindavíkur

„Þetta var mjög erfiður fundur hér í dag með atvinnurekendum í Grindavík,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra, að loknum fundi með grindvískum atvinnurekendum í síðustu viku. Kjördæmavika var í gangi og þess vegna komu nokkrir af þingmönnum kjördæmisins til Grindavíkur. Guðrún og Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármálaráðherra, ræddu svo við atvinnurekendur og var greinilegt að fundurinn fékk á Guðrúnu.

„Þetta var mjög erfiður fundur hér í dag, það er kjördæmavika í gangi og þessi fundur var settur á með stuttum fyrirvara. Sérstaklega finnst mér erfitt að heyra að 200 Grindvíkingar séu enn á vergangi, það er eitthvað sem verður að laga strax í gær! Ég fékk strax á tilfinninguna að fólk vildi ræða við fulltrúa ríkisstjórnarinnar, mig og Sigurð Inga fjármálaráðherra. Þetta var erfiður fundur en hann var líka góður, ég trúi alltaf á samtalið. Ég veit að fólki finnst eins og við séum ekki að hlusta en við erum að hlusta. Þetta er mjög flókið verkefni í Grindavík, við höfum aldrei staðið frammi fyrir annarri eins stöðu og við verðum að vanda mjög til verka. Við ræddum fordæmi mikið á þessum fundi, það hefur aldrei verið farið í uppkaup á atvinnuhúsnæði og hér í bæ eru bæði skráð félög á markaði og minni fyrirtæki, í laganna hljóðan er ekki gerður greinarmunur á fyrirtæki eftir stærð og því er spurning hvar eigi að draga mörkin og það gildir ekki bara í Grindavík heldur alls staðar á Íslandi, það eiga eftir að verða náttúruhamfarir annars staðar á landinu.

Við höfum reist varnargarða við Grindavík og Svartsengi fyrir um tíu milljarða, það eru gífurleg verðmæti í húfi hér í Grindavík og bærinn væri líklega allur kominn undir hraun ef þessir garðar hefðu ekki verið byggðir. Það var sömuleiðis mjög mikilvægt að verja orkuverið í Svartsengi, það eru rúmlega 30 þúsund manns sem reiða sig á heita vatnið þaðan. Tíu milljarðar er í rauninni ekki svo há fjárhæð ef við ímyndum okkur að það þyrfti að kynda öll hús á Suðurnesjum með olíukyndingu, það væri kostnaður upp á rúman milljarð á mánuði.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrirtækjaeigendur í Grindavík fjölmenntu á fundinn með ráðherrunum úr Suðurkjördæmi.

Guðrún á auðvelt með að setja sig í spor atvinnurekenda þar sem hún og fjölskylda hennar hafi rekið ísframleiðsluna Kjörís í Hveragerði síðan 1969.

„Ég er búin að missa tölu á þeim skiptum sem ég hef spurt mig hvar ég og fjölskylda mínu værum ef við mættum ekki koma inn í Hveragerði og stunda okkar atvinnurekstur, ef húsnæðið væri í lagi en við mættum ekki koma þar inn. Það væri ömurlega staða að vera í en Grindavík er og hefur verið eitt öflugasta sveitarfélag landsins og það er ótrúlegur kraftur í fólkinu hér, ég er oft orðlaus yfir æðruleysi Grindvíkinga, það er ótrúlega öflugt fólk sem býr hér og ég veit að Grindavík á eftir að byggjast upp á ný. Hún verður öðruvísi en við munum finna leiðir svo Grindavík blómstri á ný. Það má gagnrýna að við höfum ekki fundið húsnæði fyrir þau fjölmörgu fyrirtæki sem vildu halda sinni starfsemi áfram og ég bind vonir við að Grindavíkurnefndin komi með góðar tillögur þar af lútandi á næstunni,“ segir Guðrún.

Grindavíkurnefndin ræður opnun

Það hafa verið ýmsar sögur í gangi um hver ráði því hvort lokunarpóstar verði aflagðir og Grindavík opni.

„Það er framkvæmdanefndin sem tekur ákvörðun í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum, um hvort og hvenær Grindavík opni. Þetta vald færðist af almannavörnum yfir á Grindavíkurnefndina 1. júní. Gunnar Einarsson sem er í nefndinni, fór vel yfir þetta á fundinum áðan, framkvæmdir við lagfæringar á götum bæjarins eru langt komnar og Grindavíkurnefndin mun í kjölfarið óska eftir að lokunarpóstar verði aflagðir og bærinn opnaður.

Ég vil segja í lokin að við erum alltaf að læra betur og betur á þetta, við erum komin með meiri reynslu og það hjálpar okkur í allri ákvarðanatöku. Búast má við næsta atburði í desember og þegar líður nær honum þá lokum við en getum vonandi opnað fljótt aftur. Þegar bærinn opnar þá munu mörg fyrirtæki eiga möguleika á að lifa áfram en sum ekki. Það kom fram á fundinum að þetta eru 144 fyrirtæki hér í bæ, mörg þeirra lítil og meðalstór en 95% fyrirtækja á Íslandi eru af þeirri stærðargráðu, af því að við vorum að tala um fordæmi áðan,“ sagði Guðrún að lokum.