Grindavíkurbær skilar um það bil hálfum milljarði í hagnað
Rekstrarniðurstaða Grindavíkurbæjar var jákvæð um 496 milljónir króna árið 2019 samkvæmt ársreikningi sveitarfélagsins. Rekstrartekjur sveitarfélagsins námu 3.642 milljónum króna samkvæmt ársreikningi A- og B-hluta. Rekstrartekjur A-hluta námu 3.312 milljónum króna á meðan rekstrarniðurstaða A-hluta nam 443,8 milljónum króna.
„Það er gleðiefni að fjárhagsstaða bæjarins skuli vera jafn sterk og raun ber vitni. Samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 314 milljónum í rekstrarafgang, en niðurstaðan varð umtalsvert betri. Á sama tíma skuldar bæjarfélagið engin vaxtaberandi lán og handbært fé okkar hækkaði um 63,7 milljónir á milli ára. Góður rekstrarafgangur og sterk eiginfjárstaða er grundvöllur þess að hægt sé að ráðast í viðamiklar framkvæmdir og það á svo sannarlega við hér í Grindavík,“ segir Fannar Jónasson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar í tilkynningu.
Bæjarstjórn Grindavíkurbæjar samþykkti reikninginn samhljóða á fundi í lok apríl og var honum vísað til síðari umræðu bæjarstjórnar í kjölfarið.
Veruleg óvissa ríkir um efnahagsleg áhrif COVID-19 faraldursins segir í ársreikningnum og á sveitarfélagið von á því að tekjur þess verði lægri árið 2020.
„Að okkur hafi tekist að fara fjárhagslega sterk inn í þetta ár er auðvitað kostur. Íbúar okkar verða samt alltaf í fyrsta sæti og munum við gera okkar besta til að mæta þörfum þeirra. Grindavíkurbær hefur skapað um 50 ný störf í sumar og flestir í þeim hópi eru nemendur í framhaldsskólum eða háskólum. Auk þess verða í vinnuskólanum um 140 nemendur og að viðbættum verkstjórum og flokksstjórum verða hjá okkur meira en 200 sumarstarfsmenn sem er mikil aukning frá fyrri árum,“ segir Fannar.