Grindavíkurbær greiðir 25 milljónir vegna starfsloka
Grindavíkurbær hefur þurft að leggja út 24.934.740 krónur vegna uppsagna tveggja skólastjóra í sveitarfélaginu á kjörtímabilinu. Þetta kemur fram í svari bæjarstjóra við fyrirspurn fulltrúa G-lista á síðasta bæjarstjórnarfundi. Tveimur skólastjórum, þeim Maggý Hrönn Hermannsdóttur og Páli Leó Jónssyni, hefur verið sagt upp á kjörtímabilinu.
Í svari bæjarstjóra sem birt var á fundi bæjarstjórnar í vikunni, kemur fram að kostnaður við starfslok skólastjóranna tveggja sé 24.934.740 kr. með launatengdum gjöldum. Kostnaðurinn dreifist á árin 2010-2013.