Grindavíkurbær best setta sveitarfélag landsins
Íbúafundur um fjarhagsáætlun Grindavíkurbæjar var haldinn á mánudagskvöld en þetta er þriðja árið í röð sem þetta er gert og hefur aðsóknin aldrei verið betri. Upplýst var á fundinum að útsvar lækkar annað árið í röð, að þessu sinni úr 14,28% í 13,99% sem er með því lægsta á landinu. Fram kom að hagræðingartímabili er lokið og aðhald verði í rekstrinum næstu árin. Síðari umræða um fjarhagsáætlunina fer fram í bæjarstjórn í lok nóvember. Þetta kemur fram á vef Grindavíkurbæjar.
Róbert Ragnarsson bæjarstjóri fór yfir fjárhagsáætlunina og rakti m.a. þær aðgerðir sem gripið hefur verið til undanfarin ár. Eftir erfiðan rekstur hefur verið afgangur 2012 og 2013 til að jafna út tapið 2011 og er gert ráð fyrir rekstrarafgangi 2014. Niðurstaðan er sú að Grindavíkurbær er best setta sveitarfélag landsins samkvæmt nýrri úttekt greiningadeildar Arionbanka.
Gert er ráð fyrir 105 m.kr. rekstrarhagnaði A og B hluta á næsta ári. Fjármálaleg markmið eru að árin 2014-2016 verði rekstur A-hluta sveitarfélagsins í jafnvægi, þ.e. skatttekjur og þjónustutekjur standi undir rekstri málaflokka og sjóða A-hluta. Markmiðið er jákvæð rekstrarniðurstaða samstæðu, þ.e. A- og B-hluta.
Stefnan að setja mikla innspýtingu í efnahagslífið 2014 til 2016 samhliða því að ná rekstrarjafnvægi. Þetta krefst þess að Grindavíkurbær hafi góðan rekstrarafgang á næstu árum til að standa undir fjárfestingum og eiga fyrir auknum rekstrarkostnaði nýrra verkefna. Sem kunnugt er fer Grindavíkurbær í miklar fjárfestingar á næstu misserum. Alls verður framkvæmt fyrir um 1,8 milljarða króna árin 2014-2017, þar af um 750 á næsta ári. Fjármagnað verður með veltufé frá rekstri og tæplega 400 milljóna framlagi af HS sjóðnum og verða því ekki tekin lán til framkvæmdanna. Sjóðurinn í dag stendur í rúmum 1.400 milljónum en markmið bæjarstjórnar er að sjóðurinn verði aldrei lægri en 1.000 milljónir. Á næsta ári lýkur byggingu nýs sameiginlegs bókasafns og breytingar á húsnæði skólans fyrir flutning tónlistarskóla. Þá eru framkvæmdir að hefjast við fyrsta áfanga í uppbyggingu íþróttamiðstöðvar.
Í lok fundarins komu fram ýmsar spurningar um málefni sveitarfélagsins og var umræðan góð og málefnaleg.