Grindavíkurbær 45 ára í dag
Grindavíkurbær fagnar 45 ára kaupstaðarafmæli í dag en það var árið 1974 sem bærinn hlaut kaupstaðarréttindi. Óhætt er að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan þá og íbúum fjölgað töluvert. Árið 1974 voru íbúar 1600 en í dag vantar aðeins um 9 íbúa upp á að við náum að verða 3500.
Grindavík á sér merkilega sögu en lengst af var sjávarútvegur lífæð okkar og það sem allt snérist um. Við það störfuðu flestir en nú hafa tímarnir breyst. Jarðorkan fór í nýtingu með tilkomu Hitaveitu Suðurnesja sem stofnuð var á sjálfu afmælisárinu 1974. Bráðabirgðastöðin við Svartsengi var gangsett árið 1976 og heitu vatni hleypt á félagsheimilið Festi í Grindavík fyrst húsa á Suðurnesjum.Í dag státum af eina auðlindagarði sinnar tegundar í heiminum. Þar eru átta fyrirtæki sem nýta sér jarðvarmann og eru sex þeirra í landi Grindavíkur.
Reykjanesið dregur að sér fjölda ferðamanna daglega sem koma til Grindavíkur, allt árið um kring. Störf tengd ferðaþjónustunni eru því í dag fjölmörg. Reykjanes jarðvangurinn er hluti af UNESCO sem er menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna og mikill heiður vera aðili að slíkri stofnun.
Grindavíkurbær hefur hlotið verðskulaða athygli fyrir ótal þætti, má þar nefna öflugt atvinnulíf og sterkar stoðir. Íþróttahreyfingin hefur verið ein mesta kynning bæjarins síðustu tvo áratugi með miklum árangri og framúrskarandi aðstöðu og aðbúnaði. Þá má líka nefna að ótal félagasamtök eru starfandi í sveitarfélaginu sem hafa í gegnum árin unnið ótrúlega óeigingjarnt starf í þágu samfélagsins. Þetta eru t.d. Björgunarsveitin Þorbjörn, Kvenfélag Grindavíkur og Lionsklúbbur Grindavíkur.
Náttúran og hraunið er einstakt og við höfum vinsælasta ferðamannastað landsins í túnfætinum sem er Bláa Lónið. Og nú síðast fengum við sviðsljósið fyrir það að vera það sveitarfélag sem hefur hamingjusömustu íbúa landsins.
Á vef bæjarins segir: Til hamingju með daginn Grindvíkingar og það flotta samfélag sem þið hafið tekið þátt í að móta í gegnum árin.