Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Grindavík: Sjálfstæðismenn mótfallnir kaupum í HS Orku
Föstudagur 16. október 2009 kl. 09:36

Grindavík: Sjálfstæðismenn mótfallnir kaupum í HS Orku

-segja hættu á að lán fyrirtækisins verði gjaldfelld. Arður ekki greiddur næsta áratuginn.


Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins í Grindavík gera margar athugasemdir við hugsanleg kaup bæjarfélagsins í HS Orku. Sem kunnugt er vinna opinberir aðilar nú að því að ná yfirráðum í félaginu til að tryggja að orkuvinnslan á Reykjanesi verði áfram í meirihlutaeigu almennings.  Er þá helst verið að skoða kaup á 55% hlut Geysir Green Energy í félaginu eftir að horfið var frá því að ganga inn í kaup Magma Energy á hlut Orkuveitu Reykjavíkur.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram fyrirspurn á bæjarstjórnarfundi í fyrradag vegna málsins þar sem spurt var hvort Grindavíkurbær ætlaði sér að fjárfesta í HS Orku fyrir á annan milljarð. Meirihlutinn svaraði því til í bókun að þetta mál væri til skoðunar hjá Grindavíkurbæ, fjármálaráðuneyti og lífeyrissjóðum.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðismanna telja kaup í HS Orku mjög vafasama áhættu eins og staðan sé. Þeir mála stöðu HS Orku dökkum litum og segja að fjárfestingin muni ekki skila neinum arði til sveitarfélagsins. Í því sambandi vitna þeir til ársreiknings félagsins 2008 og árshlutareiknings frá miðju þessu ári.

„Í bæði ársreikningi og árshlutareikningi kemur fram að félagið uppfyllir ekki lengur ákvæði í lánasamningum um eiginfjárhlutfall. Þetta gæti leitt til þess að lán til félagsins verði gjaldfelld. Verið er að endursemja um málið sem væntanlega leiðir til hærri vaxta,“ segir m.a. í bókun Sjálfstæðismanna sem þeir lögðu fram vegna málsins.

Þeir fullyrða í bókuninni að eignir félagsins hafi verið endurmetnar til gangvirðis á árinu 2008 sem sé vísbending um að bókfært eigið fé sé nálægt verðmæti félagsins. Ef það sé staðreynd þá sé gengi hlutafjár í félaginu í kringum 1.

„Óráðstafað eigið fé er neikvætt um 2.600 millj. kr. í árslok 2008 sem segir að félagið þarf að hagnast um þessa fjárhæð til að geta greitt út arð. Einnig verður að hafa í huga í þessu sambandi ákvæði um eiginfjárhlutfall.
Rekstrarhagnaður félagsins hefur lækkað mikið milli ára þegar litið er til fyrstu 6 mánaða ársins 2009 (þá er ekki tekið tillit til fjármagnskostnaðar).
EBIDTA framlegð fer úr 1.733 millj. kr. 2008 í 987 millj. kr. 2009.
Athygli vekur að handbært fé félagsins lækkar mikið á árinu 2009 og er komið í 28 millj. kr. í júnílok,“ segir ennfremur í bókuninni.

Sjálfstæðismenn fullyrða að ekki verði greiddur arður úr félaginu næstu 5 – 10 árin þar sem líklegt sé að lánveitendur muni setja þau skilyrði þegar félagið verður endurfjármagnað. Þeir vilji fá greitt áður en hluthafar fá greitt.

Þeir segja að ef Grindavíkurbær fjárfesti í félaginu muni hann ekki fá neina ávöxtun á fjárfestinguna í formi arðs á næstu árum. Líklega þurfi hann að bæta við hlutafé vegna hlutafjáraukningar.

„Bærinn ætti frekar að ráðstafa fjármunum í nýsköpun sem eykur atvinnu á svæðinu heldur en að kaupa hlutafé af núverandi hluthöfum.
Ef 18 eða 20% hlutur er keyptur er hann ekki nægjanlega stór til að bærinn geti haft veruleg áhrif,“ segir í bókun Sjálfstæðismanna.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Tengd frétt:

Ríkið reynir að eignast HS Orku