Grindavík: Samstíga öðrum sveitarfélögum
Forseti bæjarstjórnar Grindavíkur, Jóna Kristín Þorvaldsdóttir, þvertekur fyrir að niðurstaða skipulags- og bygginganefndar frá því í gærkvöldi, þar sem nefndin samþykkir engar frekari háspennulínur í lofti nema meðfram þeim háspennulínum sem fyrir eru í sveitarfélaginu, sé endurspeglun á gremju frá því fyrr í sumar þegar tekist var á um hlutafé í Hitaveitu Suðurnesja hf. Hún segir söluna á Hitaveitu Suðurnesja hf. að baki og engar leifar af þeim málum séu uppi á borðum Grindvíkinga.
Jóna Kristín sagði í samtali við Víkurfréttir að skipulags- og byggingarnefndin væri í raun samstíga öðrum sveitarfélögum í þessum málum. Hún telur nefndarmenn hafa vandað sig og sýnt þá ábyrgð sem þeim ber þegar þeir gáfu umrædda umsögn og skoðað vel öll gögn og fyrirliggjandi upplýsingar frá Landsneti. Með athugasemdum sé verið að benda á leiðir til að komast hjá sjónmengun sem fylgir loftlínum og sömuleiðis haft í huga að umhverfisspjöll verði sem minnst. Síðan verður þessi umsögn Skipulags- og byggingarnefndar tekin fyrir til afgreiðslu á næsta fundi bæjarstjórnar.