GRINDAVÍK „OPEN"
Fyrir skemmstu var haldið Opna Grindavíkurmótið í pílukasti í Festi í Grindavík. Þarna voru mættir allir bestu pílukastarar landsins en 28 þátttakendur voru á mótinu frá nokkrum píluklúbbum. Í undanúrslitum mættust þeir Guðjón Hauksson frá Pílufélagi Grindavíkur og Óli Sigurðsson frá Pílukastfélagi Reykjanesbæjar annar vegar og Jóhannes Harðarson og Kristinn Magnússon báðir frá Pílukastfélagi Reykjanesbæjar. Guðjón og Jóhannes mættust svo í úrslita leik og eftir mjög harða og spennandi keppni stóð Jóhannes uppi sem sigurvegari. Bæjarstjóri Grindavíkur afhenti svo verðlaunin og glæsilegan farandbikar sem Grindavíkurbær gaf til keppninar í fyrra. Þótti mönnum mótið takast mjög vel og vel að öllu staðið. Mótstjóri vildi taka fram að það væri helst að þakka styrktaraðilum hvernig hefði til tekist en þeir eru Stakkavík, Fiskanes, Bílaþjónusta Halldórs, Vélsmiðja Þorsteins, Vísir, Þorbjörn og Grindavíkurbær.