Grindavík: Menntaskóli hefji starfsemi næsta haust
Menntamálaráðuneytið skipaði fyrir ári síðan nefnd til að athuga hvort grundvöllur væri fyrir stofnun framhaldsskóla í Grindavík. Gert var ráð fyrir að skólinn myndi starfa á grundvelli laga um framhaldsskóla og námsframboð tæki mið af aðalnámskrá framhaldsskóla. Nefndin hefur nú lokið störfum, samkvæmt því sem fram kom á bæjarstjórnarfundi í Grindavík í fyrradag.
„Vilji bæjarstjórnar Grindavíkur er mjög skýr en það er að hefja skólastarf haustið 2010.
Menntamálaráðherra og fjármálaráðherra hafa gefið munnleg loforð um að skólastarf í framhaldsskóla í Grindavík hefjist haustið 2010. Þetta er fagnaðarefni enda vonir og væntingar miklar til þessa starfs,“ segir m.a. í tillögu sem samþykkt var á fundinum.
Samþykkt var að fela bæjarstjóra að ganga frá skriflegu samþykki við menntamálaráðuneytið.
----
Ljósmynd/Oddgeir Karlsson - Grindavík.