Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Fréttir

  • Grindavík í blóma
  • Grindavík í blóma
Mánudagur 24. nóvember 2014 kl. 14:33

Grindavík í blóma

Grindavík hefur nokkra sérstöðu í samfélaginu hér á Suðurnesjum. Grindvíkingar hafa alltaf viljað vera út af fyrir sig og halda utan um sín mál. Þeir vilja ekki heyra minnst á sameiningu sveitarfélaga. Grindavíkurbær fagnaði 40 ára kaupstaðarafmæli fyrr á árinu og í tilefni af því fórum við hjá Víkurfréttum í samstarf við bæjaryfirvöld um útgáfu á myndarlegu afmælisriti sem var dreift um öll Suðurnes og víðar. Í aðdraganda þeirrar útgáfu kynntumst við hjá Víkurfréttum samfélaginu mun dýpra en áður. Við sáum að Grindavík er í blóma og þar er samfélag sem er til fyrirmyndar á mörgum sviðum. Öflugt atvinnulíf er í Grindavík þar sem útgerð og fiskvinnsla eru ein helsta stoðin. Þá stendur ferðaþjónustan sterkum fótum í Grindavík með Bláa lónið, sem helsta flaggskip ferðamála á Íslandi, í fararbroddi.

Mannlífið í Grindavík er einnig í miklum blóma. Við hjá Víkurfréttum erum að efla vinnslu sjónvarpsefnis í framboði Víkurfrétta á efni frá Suðurnesjum. Þar hefur Grindavík einmitt verið áberandi síðustu vikur. Einlægt viðtal sem Sólný Pálsdóttir veitti Sjónvarpi Víkurfrétta um það hvernig er að eignast barn með Downs-heilkenni hefur vakið mikla athygli. Í síðustu viku heimsóttum við svo Dísu í Akri sem hefur komið upp vísi að safni á heimili sínu í Grindavík.

Í þætti Sjónvarps Víkurfrétta sl. fimmtudagskvöld kom Grindavík einnig sterkt við sögu. Við heimsóttum fiskvinnslufyrirtækið Vísi sem nýlega hefur fjölgað bæjarbúum í Grindavík um 100 manns. Við greinum frá því að allir þessir nýbúar hafa nú fengið varanlegt húsnæði í Grindavík. Þá kíktum við á kóræfingu hjá Vísiskórnum, sem er blandaður kór skipaður íslensku og pólsku söngfólki og ræddum við Margréti Pálsdóttur kórstjóra. Já, það er svo sannarlega líf í Grindavík og við höfum ekki sagt skilið við sjávarplássið handan við Þorbjörninn, því í þættinum okkar í þessari viku verður m.a. viðtal við ungan Grindvíking sem bræðir hjörtu og er að gera áhugaverða hluti í mannlífinu í Grindavík.

Og til að slá botninn í þennan pistil um Grindavík þá er ástæða til að minnast á ráðstefnu sem verður haldin á fimmtudag í næstu viku um nýsköpun í sjávarútvegi, ferðaþjónustu og orkumálum í tilefni af 40 ára kaupstaðarafmæli Grindavíkurbæjar. Ráðstefnan verður haldin í Bláa lóninu og verður án efa uppspretta enn frekari áhugaverðra frétta frá Grindavík.

Við hjá Víkurfréttum hvetjum Grindvíkinga og aðra til að standa með okkur vaktina og benda á áhugavert efni í blað, á vef eða í Sjónvarp Víkurfrétta.

Hilmar Bragi Bárðarson.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024