Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Grindavík: Horft til tækifæra í þorskseiðaeldi
Fimmtudagur 22. janúar 2009 kl. 09:13

Grindavík: Horft til tækifæra í þorskseiðaeldi

Í Grindavík horfa heimamenn til atvinnutækifæra í tengslum við uppbyggingu þorskseiðaeldisstöðvar en á vegum Sjávarútvegsráðuneytisins er nú starfandi nefnd sem kannar möguleikann á því að setja upp slíka stöð á Íslandi. Þar sem Hafró rekur tilraunaeldisstöð í Grindavík þykir mörgum ákjósanlegt að seiðaeldisstöð yrði reist þar enda eru sérfræðingar á því að allar aðstæður og skilyrði fyrir slíka starfsemi sé með besta móti í Grindavík. Atvinnumálanefnd bæjarins fjallaði um málið í byrjun nóvember og var ákveðið að kynna verkefnið fyrir þingmönnum kjördæmisins og fá stuðning þeirra.

Árið 1988 var byggð 560 fermetra tilraunaeldisstöð Hafró á Stað í Grindavík og árið 2002 var hún stækkið um tæpa 800 fermetra. Megináherslan hefur verið á þróun þorskseiðaeldis og er starfsemin komin á það stig að geta lagt til þorskseiði í fjöldaframleiðslu til áframeldis. Til þess þarf að reisa umrædda eldisstöð. Er talað um að stöðvarhúsið þyrfti að vera 5 – 6 þúsund fermetrar með framleiðsugetu upp á 10 milljónir seiða árlega. Slík stöð gæti skapað á þriðja tug starfa.

„Þar sem Hafró er með stöðina hér í Grindavík og komin á það stig að geta framleitt þorskseiði fyrir áframeldi er eðlilegast að eldisstöðin myndi rísa hér. Eðlilegast væri að ríkið stæði að því þá með hugsanlegri þátttöku sveitarfélaga og fyrirtækja sem vildu koma að þessu. Þetta er hagsmunamál fyrir Suðurnesin og sjávarútveginn,“ segir Óskar Sævarsson, sem var starfsmaður atvinnumálanefndar Grindavíkur fyrir áramót.

„Á vegum sjávarútvegsráðuneytisins er starfandi nefnd sem fer yfir þessi þorskeldismál og við ákveðum svona frekar kúrsinn varðandi notkunina á tilraunastöðinni þegar sú skýrsla liggur fyrir. Það voru uppi hugmyndir um að byggja stóra seiðaeldisstöð en ég veit ekki hvort það sé mat manna í dag að ástandið í landinu sé þannig að það grundvöllur sé fyrir slíkri stöð. Við ætlum þessari tilraunaeldissstöðinni hlutverk, annað hvort í vaxandi mæli í rannsóknarstarfinu eða hugsanlega að við munum koma sterkara að seiðaframleiðsunni ef það verður niðurstaðan,“ sagði Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafró, um aðkomu stofnunarinnar að verkefninu.

Í setningarávarpi sem Einar Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, flutti í haust á ráðstefnu um stöðumat og stefnumótun fyrir þorskeldi fjallaði hann um framtíðarhorfur þorskeldis á Íslandi.
„Nú eru skipulegar kynbætur á þorski, með það að markmiði að koma upp eldisstofni með bætta arfgerð í mikilvægustu eldiseiginleikunum, komnar vel af stað. Í framhaldi af því verður að stórauka seiðaframleiðslu og um það markmið verður að nást samstaða sem byggist á þekkingu – erlendri og innlendri og raunhæfum rekstrarviðmiðunum. Í seiðaframleiðslunni verður það markmið að nást hér á landi að kynbætt eldisseiði fáist á samkeppnishæfu verði gagnvart útlöndum en svo að það takist og eins hitt að þorskeldið verði nægjanlega stórt í sniðum þarf að koma upp seiðaeldisstöð með umtalverða framleiðslugetu, eða a.m.k. 10 milljónir seiða árlega“, sagði sjávarútvegsráðherra.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024