Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Sunnudagur 20. desember 1998 kl. 19:43

GRINDAVÍK Á MARGT SAMEIGINLEGT MEÐ FRANSKA BÆNUM JONZAC

Fyrir skemmstu fóru bæjarstjórinn Einar Njálsson og forseti bæjarstjórnarHallgrímur Bogason til bæjarins Jonzac í suð-vestur Frakklandi í þeim tilgangi að mynda vinarbæjartengsl við þennan bæ. Jonzac er 4000 manna bæjarfélag sem er staðsett í blómlegu og sólríku héraði sem heitir Charente - Maritime en svæðið er stærsti ostruframleiðandi í Evrópu og einnig eru framleidd í héraðinu eðalvín á borð við Cognac og Pineau. Þess má geta að hér aðsstjórn Charente - Maritime gerði samning um samstarf við Samband sveitafélaga á Suðurnesjum síðastliðið sumar og í framhaldi af því kom ósk um vinarbæjartengsl við Grindavík frá bæjarstjórn Jonzac. Bæjarstjóri Jonzac Monsieur Claude Belot er einnig forseti héraðsstjórnar Charente - Maritime og jafnframt öldungadeildarþingmaður svo hann er mjög áhrifamikill á þessu svæði. Einar og Hallgrímur komu til Jonzac á föstudegi en um þessa helgi var landssöfnun í Frakklandi til styrktar börnum með vöðvarírnun og var sjónvarpað beint um allt Frakkland frá þremur borgum en Jonzac var ein þeirra og var mikið um dýrðir í bænum og var talið að um 30.000 þúsund manns hafi verið í bænum yfir helgina. Mikil áhersla var lögð á tengslin við Ísland í þessum hátíðahöldum m.a. var Íslenski fáninn eini erlendi fáninn sem dreginn var upp í bænum. Einnig voru reist þrjú hús á aðal torgi bæjarins en þar voru sýnd handtökin við flökun á fiski og söltun. Sýnt var hvernig síld er unnin til reykingar og ýmsar aðferðir við ganga frá síld til neytenda. Strax á föstudagskvöldinu var þeim Einari og Hallgrími svo boðið til mikillar veislu á bæjarskrifstofunum sem staðsettar eru í kastala frá sextándu öld. Þar var samankomin bæjarstjórn Jonzac ásamt bæjarstjóra, Unnur Orradóttir - Ramette sendiráðsritari frá Íslenska sendiráðinu í París og fulltrúar Nord Morou dótturfyrirtækis S.Í.F. en verksmiðja fyrirtækisins er staðsett í Jonzac. Undirrituð var viljayfirlýsing um samvinnu milli bæjarfélaganna. Samvinnan tekur til eftirfarandi þátta: fræðsla og rannsóknir, menntun, Viðskiptamál (ferðamál, heilsulindir, iðnaður) menning og umhverfismál. Jonzac og Grindavík hafa margt sameiginlegt m.a. fiskur en um tuttugu þúsund tonn af saltfiski fara til vinnslu og dreifingar hjá Nord Morou á ári og þar starfa 180 manns en fyrirtækið er stærsti atvinnurekandinn í bænum. Þeir Einar og Hallgrímur fengu tækifæri á að skoða verksmiðju Nord Morou sama dag og haldið var heim og sáu m.a. saltfisk frá Stakkavík hf. og Vísi hf. sem var að fara í frekari vinnslu. Þess má geta að Stakkavík hf. og Vísir hf. eru stærstu einstöku framleiðendur sem selja í gegn um S.Í.F. Í Jonzac eru heilsulindir sem eru staðsettar í gamalli grjótnámu, þar fæst 65° heitt vatn úr tveimum borholum sem bærinn á en vatnið er eitthvað í líkingu við það sem við þekkjum í Bláa lóninu. Einar Njáls son sagði að ferðin hefði tekist í alla staði mjög vel og var hann mjög bjartsýnn á samstarf við nýfengna vini okkar Grindvíkinga.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024