Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Grimmur utanvegaakstur í Reykjanesfólkvangi
Föstudagur 2. maí 2008 kl. 10:24

Grimmur utanvegaakstur í Reykjanesfólkvangi

Utanvegaakstur er sem aldrei fyrr grimmt stundaður í Reykjanesfólkvangi, þrátt fyrir að slíkur akstur sé stranglega bannaður þar. Þessi sjón mætti ljósmyndara VF á leið hans niður hálsinn við Djúpavatn í gær. Voru þar jeppi, eitt fjórhjól og þrír krossarar á ferð að spæna upp vatnsbakkann og umhverfi hans, eins og sjá má á hjólförunum á myndunum. Var greinilega gaman hjá þeim ef marka má ópin og hlátrasköllin sem heyrðust langar leiðir.

Vestan megin í fólkvanginum eru námur sem þessum aksturstækjum er ætlað að vera og mátti sjá fjölda vélhjóla þar í gær. Því miður virðast alltaf einhverjir ekki virða lög og reglur og koma óorði á hina sem stunda þetta sport af ábyrgð og virðingu fyrir umhverfi og náttúru.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Vélhjólamenn hafa löngum sótt inn í fólkvanginn og á einum degi síðasta sumar taldi landvörðurinn 200 hjól á svæðinu. Hefur starf hans mikið snúist um að hafa afskipti af vélhjólamönnum og reyna að beina þeim inn á áðurgreint námusvæði, þar sem menn virtust skemmta sér hið besta í gær.

Stjórn Reykjanesfólkvangs hefur nú ráðið landvörð í heilsársstarf og er vonast til þess að það muni verða til þess að umgengni um fólkvanginn batni, þar sem sýnilegur árangur sást af starfi hans síðastliðið sumar.

Meðfylgjandi myndir og fleiri sem sýna hverjir þarna voru á ferð, verður komið í hendur lögreglu.