Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mánudagur 3. júlí 2000 kl. 14:50

Gríðarlegur uppgangur í Vogum

Yfir 140 lóðir hafa verið seldar í Vogum á Vatnsleysuströnd sl. ár og ekkert lát er á umsóknum um fleiri lóðir. Ástæðan er markaðsátak sem Vatnsleysustrandarhreppur réðist í á síðasta ári, þar sem áætlað var að fjölga íbúum staðarins úr 700 í 1100 á fimm árum. Átakið fólst í að vekja athygli fólks á góðri þjónustu og því hve stutt Vogar eru frá Reykjavík. „Meðan gríðarleg þensla er í Reykjavík og lóðaverð rís upp úr öllu valdi, eru lóðir á Suðurnesjum enn á góðu verði“, sagði Jóhanna Reynisdóttir, sveitastjóri, í samtali við Víkurfréttir á dögunum. „Hér er einsetinn grunnskóli og stefnt að því að fjölga leikskólaplássum þannig að engir biðlistar verði þangað inn, en þetta eru helstu kostirnir sem fólk af höfuðborgarsvæðinu sér við að byggja hér hús“, segir Jóhanna og bætir því við að sú 40% fjölgun íbúa, sem áætlað var að tæki um fimm ár virðist ætla að verða að veruleika mun fyrr, eða á um þremur árum. Jóhanna segir flesta kaupendur lóðanna vera úr Reykjavík, en þó slæðist með einstaka Suðurnesjamenn. Þá verða flest húsin sem byggð verða á þessum 140 lóðum, einbýlishús, en nokkuð verður einnig um raðhús.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024