Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gríðarlegar umferðartafir í Reykjanesbæ og á Reykjanesbraut
Sunnudagur 2. september 2007 kl. 02:21

Gríðarlegar umferðartafir í Reykjanesbæ og á Reykjanesbraut

Lögreglumenn á Suðurnesjum hafa aldrei kynnst öðrum eins umferðartöfum og nú eru í Reykjanesbæ og á Reykjanesbraut. Nú þegar klukkan er farin að ganga þrjú aðfararnótt sunnudags er ennþá bíll við bíl og ná bílalestirnar um allar helstu umferðaræðar Reykjanesbæjar og að Reykjanesbrautinni. Þar tekur ekki betra við, því þétt og oft kyrrstæð bílalest nær frá  fyrstu gatnamótum í Keflavík og inn alla Reykjanesbraut. Það er ekki fyrr en á tvöföldun brautarinnar sem eitthvað fer að greiðast úr umferðinni. Þrengingar vegna framkvæmda við Grindavíkurveg og Voga tefja mjög fyrir umferð.

Blaðamaður Víkurfrétta var rétt um klukkustund að komast frá bílastæði við hátíðarsvæðið í Keflavík og að Bónus á Fitjum. Þetta er leið sem vanalega tekur um fimm mínútur að aka.
Teljari Vegagerðarinnar á Strandarheiði hafði talið rúmlega 1600 bíla um Reykjanesbraut frá miðnætti. Vel á 15. þúsund bíla fóru um Reykjanesbrautina í gær, laugardag. Á venjulegum degi eru þeir um 8000 talsins.

Ásmundur Friðriksson, verkefnisstjóri Ljósanætur í Reykjanesbæ, sagði á hátíðarsviðinu í kvöld að 40.000 manns væru samankomnir á Ljósanótt. Viðmælendur Víkurfrétta á hátíðarsvæðinu voru sammála um að þar hafi aldrei áður sést annar eins fjöldi fólks og hafa þó síðustu Ljósanætur verð vel sóttar. Veðrið á hátíðarsvæðinu í kvöld var gott. Rigningarskúr gerði rétt upp úr kl. 20 og síðan gerði hellidembu þegar flugeldasýningunni var að ljúka. Það kann að eiga þátt í því að svo margir ákváðu að yfirgefa hátíðarsvæðið á sama tíma og umferðarteppur mynduðust víða um bæinn.

Án efa verður farið yfir umferðarskipulagið strax eftir helgi, enda má læra margt af því ástandi sem ríkti í umferðinni frá því rétt rúmlega ellefu í gærkvöldi og stendur enn þegar þetta er skrifað.

 

Mynd: Gríðarlegt fjölmenni á hátíðarsvæðinu í Reykjanesbæ í kvöld. Ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024