Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Miðvikudagur 20. mars 2002 kl. 10:42

Grettir sterki - Leikdómur

Leikfélag Keflavíkur og leiklistarfélag Fjölbrautakóla Suðurnesja Vox Arena, settu saman á svið söngleikinn Gretti eftir þá Þórarinn Eldjárn, Ólaf Hauk Símonarson og Egil Ólafsson, sem gerði leikfélögunum þann heiður að vera viðstaddur frumsýninguna.Sýningin sem undirrituð fór á var sú þriðja í röðinni og það kom mér á óvart hve fáir lögðu leið sína í Frumleikhúsið og eftir að hafa séð sýninguna varð undrun mín enn meiri, því hér er ágæt sýning á ferð.
Til að gera langa sögu stutta þá býr Grettir með foreldrum sínum, eldri bóður og yngri systur í blokk í Breiðholtinu. Hann er lítill og væskilslegur og leiðist út á glæpabrautina til að ganga í augun á stúlku. Til að sýna hve fáránleg sú hugmynd er, hafa höfundarnir komið því þannig fyrir að Grettir brýst inn í sjoppu bróður síns, sem hann þar að auki hafði lykil af. „Hversu heimskulegt er það", segir hann sjálfur í sýningunni. Hann lendir á litla Hrauni og tekur upp mikla og markvissa líkamsþjálfun og hor-mónaát „Skildu þeir vera úr hori", spyr Grettir. Þessi líkamsrækt verður til þess að hann er valinn úr glæsilegum hópi fanga til að fara með aðalhlutverk í kvikmynd og fær meira að segja lánaðann leikmun úr einni af myndum Hrafns Gunnlaugssonsr svo hann þurfi ekki að koma nakinn fram. Hér látum við lokið frásögn af söguþræði, duldum meiningum og tvíræðum tilvitnunum, enda best að fólk drífi sig í Frumleikhúsið og sjái sýninguna.

Leikmyndin er svört og hönnuð af leikstjóranum Jóni Páli Eyjólfssyni sjálfum. Hann hefur ákveðið að nota rýmið í Frumleikhúsinu til hins ýtrasta og tekst ágætlega til með það. Pallar eru notaðir til að búa til hæð, auk þess sem gangurinn á milli sætaraðanna er notaður fyrir innkomur og eitt tilkomumikið æluatriði. Til að svona dökk leikmynd njóti sín þarf lýsingin bæði að vera meiri og fjölbreyttari. Það verður þó að segjast að rennihurðirnar voru hugvitsamlega notaðar til að breyta og skapa nýtt rými. Búningar og útlit eru líka á ábyrgð Jóns Páls Eyjólfssonar og þar tekst honum einstaklega vel upp við að ná stemmningu og tíðaranda og ég hugsa ennþá með hlýju til pönk-hópsins því þar voru unglingsár mín lifandi komin. Sveindís Valdimarsdóttir sér líka um búninga og útlit. Tónlistin í sýningunni var vel unnin, enda valinkunnir fagmenn þar á ferð, þeir Júlíus F. Guðmundsson og Sigurður Garðarsson. Stundum fannst mér samt tónlistin yfirgnæfa textann, en það er hreint stillingaratriði hjá hljóðmanni sem er Gunnar Þór Böðvarsson. Leikararnir eru misjafnir söngmenn og það voru nokkrir sem báru af í þessari sýningu, Glámur leikinn af Óttari Guðbirni Birgissyni var einn besti söngvari sýningarinnar ásamt Jóni Marinó Sigurðssyni sem lék föður Grettis á sannfærandi hátt. Eins kom söngur Söndru Þorsteinsdóttur á óvart, ekki bara getur stúlkan leikið heldur syngur hún eins og engill líka. Aðrir hefðu þurft meiri æfingu og þjálfun í söng því það er ekki öllum gefið að syngja. Leikur hópsins var hraður, tengingar góðar og aldrei leiðinleg stund og sumir leikaranna eins og Jón Marinó, uxu á sviðinu fyrir framan mann. Í heildina má segja að leikurinn hafi gengið snuðrulaust fyrir sig og Jóhann Már Smárason stóð sig vel sem Grettir, en það var samt eins og hann missti flugið í síðari hluta verksins. Krakkarnir úr Vox Arena leika mörg hlutverk og sum eru einstaklega vel unnin eins og hlutverk Burkna Birgissonar sem Tarsan, sem vöðvafjall og sem forstjóri. Burkni gæti náð langt á þessu sviði ef hann kærir sig um það.

Hér er um að ræða góða sýningu í heildina og Jón Páll má vera ánægður með útkomuna. Það eina sem mér fannst virkilega ábótavant var skortur á samhæfðum hreyfingum og dansatriðum (coriografiu) sem oftast fylgja söngleikjum. Ég mæli með því að Reykjanesbæingar fari í leikhús, því eins og Jón Páll skrifar í leikskrá. „Vinnustundir áhugaleikara eru enn dýrmætari vegna þess þær eru gefnar, án endurgjalds, án þess að vilja neitt í staðinn nema ef skildi vera að þú getir í örskotsstund gleymt þér í myrkrinu og hrifist með". Ég hreifst með.

Kristlaug Ma. Sigurðardóttir
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024