Grétari Mar skipt út í hafnarstjórn
Meirihluti Samfylkingarinnar og óháðra borgara í Sandgerði hefur ákveðið að skipta um einn af fulltrúum sínum í atvinnu- og hafnarráði. Grétar Mar Jónsson, skipstjóri og fyrrverandi alþingismaður, yfirgefur þar með ráðið eftir 29 ára samfellda setu í hafnarstjórn. Morgunblaðið greinir frá þessu í dag.
Samfylkingin og K-listi óháðra borgara hafa meirihluta í bæjarstjórn Sandgerðisbæjar. Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar, staðfestir að vilji sé til þess innan framkvæmdaráðs listans að skipta Grétari Mar út. Það sé þó á valdi bæjarstjórnar og var málið ekki á dagskrá bæjarstjórnarfundar í gær. „Við teljum mikilvægt að öll ráð séu vel starfhæf og menn geti unnið saman. Það hefur komið í ljós, að minnsta kosti í einu máli, að menn eru með mismunandi áherslur,“ segir Ólafur Þór Ólafsson í viðtali við Morgunblaðið..
Heldur áfram að skrifa
Vísar Ólafur þarna til afgreiðslu máls í hafnarstjórn í haust þar sem Grétar Mar studdi tillögu frá minnihlutanum sem raunar var ekki samþykkt í bæjarstjórn.
Grétar Mar hefur að undanförnu skrifað greinar um fjárhag bæjarins á fréttavefinn 245.is og gagnrýnt ákvarðanir meirihlutans á síðasta kjörtímabili, meðal annars sölu á eignarhlut í Hitaveitu Suðurnesja og samstarf við Fasteign hf. Grétar Mar segir að þessar greinar hafi komið við kaunin á einhverjum sem telji sig bera ábyrgð á þessum málum. „Ég er hvorki sár né svekktur og mun halda áfram að finna að því sem ég tel aðfinnsluvert,“ segir hann í samtali við Helga Bjarnason, blaðamann Morgunblaðsins.