Greip 10 fýla á flugi
17 ára Keflvíkingur slær „mávamanninum“ við
Keflvíkingurinn Friðrik Daði Bjarnason var á veiðum með fjölskyldu sinni við Flatey á Breiðafirði þegar hann gerði sér lítið fyrir og greip fýl á flugi. Ekki nóg með það heldur greip hann alls um 10 fugla sem flugu meðfram bátnum í veiðiferð fjölskyldunnar um sl. verslunarmannahelgi. Eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi hér að neðan, þá byrjar yngri bróðir Friðriks, Karl Sævar á því að gefa fýlunum úr lófa sér. Síðar má sjá Friðrik sem er 17 ára, grípa tvo fugla á flugi.
Friðrik sem reglulega siglir á þessum slóðum sagðist í samtali við VF hafa haft gaman af atvikinu en aldrei áður hafi fuglarnir flogið svo nálægt bátnum og gefið færi á sér. Hann segir verst að ekki hafi allir fuglarnir náðst á myndband en hann er þó ekki að búast við heimsfrægð vegna myndbandsins. Hann segir fuglana hafa verið frekar rólega en þegar hann hafi haldið á þeim hafi þeir orðið frekar önugir. Fýlar eiga það til að æla ef á þá er ráðist en svo var ekki í þessu tilviki.
Eins og frægt er orðið hefur myndband af manni sem grípur máv á flugi slegið í gegn að undanförnu í netheimum. Sá maður á hins vegar ekki roð í Friðrik sem virðist vera mikil aflakló.