Greinir frá einelti sem hún varð fyrir
Forseti bæjarstjórnar Grindavíkur sagði frá einelti og pressu í samfélaginu í þjóðhátíðarræðu.
Bryndís Gunnlaugsdóttir, forseti bæjarstjórnar Grindavíkur sagði frá því í þjóðhátíðarræðu sinni á 17. júní að hún hafi orðið fyrir einelti á unglingsárum og hafi flutt úr bænum vegna þess.
„Frægt er orðatiltækið, það þarf heilt þorp til að ala upp barn, og það er að mörgu leyti satt. Við hér í Grindavík hjálpumst að við að ala upp börn bæjarins á margan hátt. Í leikskólum og grunnskólanum vinnur duglegt fólk við að kenna börnum. Í íþróttahreyfingunni, tónlistarskólanum, kirkjunni og björgunarsveitinni, svo eitthvað sé nefnt, tekur sjálfboðaliðastarfið við og ásamt þjálfurum,“ segir Bryndís í upphafi ræðu sinnar.
En betur má ef duga skal, segir forseti bæjarstjórnar og segir frá því þegar hún ákvað að flytja frá Grindavík 20 ára gömul vegna þess að hún upplifði pressu frá samfélaginu og einelti:
Því eins yndislegt og það er að búa í litlu samfélagi þá getur það einnig verið mjög erfitt. Grindavík hefur fært mér mína hamingjusömustu daga og ómetanlega reynslu en það eru líka Grindvíkingar sem hafa fært mér mikla sorg. Ég var 20 ára gömul þegar ég flutti úr Grindavík. Opinbera ástæðan var sú að ég var að flytja í bæinn í háskóla. Raunverulega ástæðan var önnur. Raunverulega ástæðan var sú að ég vildi komast í burtu frá Grindavík. Ég vildi flytja úr Grindavík því mér fannst alltaf vera einhver ósýnilega pressa á mér frá samfélaginu. Þrátt fyrir að fjölskylda mín studdi mig ávallt í að vera sjálfstæð og vera einfaldlega ég þá var þessi ósýnilega pressa til staðar. Pressa sem ég á erfitt með að lýsa í orðum en henni verður best lýst svo dæmi séu nefnd að þar sem að ég var dóttir Gulla Flex þá átti ég að æfa fótbolta en ekki körfubolta. Ég hafði ávallt náð frábærum árangri í skóla og verið stillt og prúð og því þá átti ég að vera stillta stelpan um aldur og ævi og mér fannst samfélagið taka harðar á mínum hliðarsporum en annarra. Ég var ein af þeim sem upplifði einelti á unglingsárum og bar þau sár ein - ég var fyrirmyndarnemandi, formaður nemendaráðs og leikmaður í bæði fótbolta og körfuboltaliðinu. Ég átti ekki að verða fyrir einelti svo ég setti upp bros - bros sem samfélagið bað um. Mér leið eins og mér hefði verið rétt handrit að lífi sem ég átti að lifa sem einhver annar en ég hafði skrifað. Svo ég fór, til að finna mig án þess að verða fyrir utanaðkomandi áhrifum af þessari ósýnilegu pressu sem ég upplifði í samfélaginu hér í Grindavík.
Hvers vegna segi ég frá þessu hér í dag. Ég geri það vegna þess að nú er ég flutt heim í bæjarfélagið sem gefur mér mína bestu daga. Í bæinn sem ég elska og vil gefa til baka það sem ég hef lært. Og því miður sé ég að þrátt fyrir að ekkert bæjarfélag sé eins samheldið í gleði og sorg, að ekkert bæjarfélag eigi jafn skemmtilega bæjarhátíð og jafn kappsama íbúa og Grindavík. Þá sé ég að þessi ósýnilega pressa vakir enn yfir börnum sem hér alast upp. Ég heyri sögur af ungu fólki sem ólst hér upp sem getur ekki ímyndað sér að flytja aftur til Grindavíkur. Að við dæmum ennþá börn eftir því hverjir eru foreldrar þeirra eða í hvaða bæjarhluta þau búa. Að margir sem flytja til Grindavíkur eiga erfitt með að komast inn í samfélagið nema þau séu afreksmenn í íþróttum. Við fögnum utanbæjarmönnum sem okkar eigin þegar þeir færa hróður til bæjarins en ef þeir misstíga sig þá erum við fljót af afneita þeim.
Því bið ég ykkur um eitt - takið orð Ólafs Stefánssonar til fyrirmyndir þegar hann hrósaði foreldrum sínum fyrir að hafa leyft honum að alast upp án pressu og vera einfaldlega strákur þótt samfélagið kallaði á annað. Leyfum börnum Grindavíkur að alast upp í áhyggjulausu samfélagi. Þar sem þau fá að vaxa og dafna í þann einstakling sem þau vilja vera - en ekki þann sem samfélagið segir að hann eigi að vera. Kennum börnum okkar að bera virðingu fyrir hvort öðru og síðast en ekki síst virðingu fyrir umhverfinu og Grindavík. Hættum að tala um hvað aðrir eiga að gera fyrir bæinn og förum að hugsa um hvað get við gert til að gera Grindavík að góðu bæjarfélagi.
Bryndís beinir orðum sínum til bæjarbúa sem hún segir vera hjarta bæjarins:
Við verðum að muna að það eru við, íbúar Grindavíkur sem búum til hjarta bæjarins. Það er við sem hér búum sem berum ábyrgð á því að hér sé gott að búa. Ég vil að þeir sem búa hér tali um hjartahlýju bæjarbúa, samheldni og styrk en ekki eingöngu um árangur í íþróttum og fallegar byggingar.
Hér má sjá ræðu Bryndísar í heild á grindavik.is