Greinilegur vilji til að gera breytingar í samfélaginu
- segja oddvitar Frjáls afls og Beinnar leiðar um könnun Morgunblaðsins.
Eins og komið hefur fram í fréttum er meirihluti Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar fallinn samkvæmt könnun Félagsvísindastofnunar fyrir Morgunblaðið. Víkurfréttir fengu í gær viðbrögð Árna Sigfússonar bæjarstjóra við þeim niðurstöðum. Við heyrðum einnig í oddvitum annarra framboða og fengum þeirra viðbrögð.
Gunnar Þórarinsson, oddviti Frjáls afls, segir niðurstöðurnar í sjálfu sér ekki koma á óvart. „Við höfum fundið þessi viðbrögð í okkar samtölum við fólk. Það er ákveðinn vilji til að breyta til.“ Gunnar segir koma sér mest á óvart hversu mikið fylgi Píratar hafa fengið. „Ég er vongóður um að fá meira fylgi fyrir Frjálst afl. Við ætlum að halda áfram því sem við höfum verið að gera, að kynna stefnuskár okkar fyrir kjósendum og hvernig megi bæta samfélagið og allt sem tilheyrir rekstri bæjarins. Ég vil koma því á framfæri að Frjálst afl mun vinna af heiðarleika í þessari kosningabaráttu og vill auðvitað íbúum Reykjanesbæjar allt hið besta,“ segir Gunnar að lokum.
Aðspurður um fyrstu viðbrögð við könnun Morgunblaðsins segir Guðbrandur Einarsson, oddviti Beinnar leiðar, vera ánægja með að það sé vilji til breytinga í samfélaginu.
„Okkar markmið þegar við lögðum af stað í þessa vegferð var að sjá breytingar á stjórnarháttum. Það virðist vera að takast miðað við þetta.“ Samkvæmt könnuninni kemur Bein leið einum manni inn en Guðbrandur segist auðvitað vilja meira fylgi og metnaðurinn til þess að gera vel sé til staðar. „Og ég vil sjá konurnar mínar sem skipa sætin fyrir aftan mig komast í bæjarstjórn. Það væri sæmd fyrir bæjarstjórnina að hafa þessar konur innanborðs.“
Guðbrandur segir sitt fólk hvergi hætt og það sé frábær árangur að komast úr engu í að ná inn einum manni. Þau muni því halda ótrauð áfram.
Guðbrandur segir ástæðurnar geta verið af ýmsum toga þegar hann er spurður um hver geti verið hugsanleg ástæða fyrir því að meirihlutinn fellur.
„Þessi meirihluti er búinn að sitja í þrjú kjörtímabil og það er komin ákveðin þreyta í þetta. Svo er bara ýmislegt að gerast og fólk betur upplýst hvað varðar fjárhag sveitarfélagsins og eins hafa vonir um árangur verið að bresta. Það sem hefur verið að gerast á landsvísu getur einnig verið að hafa áhrif.“
Guðbrandur telur að fram sé kominn alvöru vilji hjá íbúum til einhverra breytinga í samfélaginu. „Við sáum þessar breytingar eiga sér stað í síðustu kosningum í Reykjavík og það er farið að hafa áhrif til okkar, loksins vil ég segja. Ég er fullur þakklætis til þeirra sem eru að styðja okkur og hvet fólk til að vera með augun opin og kynna sér stefnumálin eins og það getur og eins að koma og heimsækja okkur. Við tökum vel á móti fólki og ætlum að nýta tímann vel til að undirbúa okkur fyrir það sem koma skal,“ segir Guðbrandur að lokum.