„Greinilegt að tvöföldun Reykjanesbrautar er forgangsmál“
- segir Steinþór Jónsson formaður áhugahóps um tvöföldun Reykjanesbrautar.
Borgarafundur um tvöföldun Reykjanesbrautar verður haldinn í Stapa þann 7. febrúar næstkomandi. Áhugahópur um örugga Reykjanesbraut boðar til fundarins en hann hefst klukkan 20:00.
Meðal þeirra sem munu flytja ávörp á fundinum eru Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Steinþór Jónsson formaður áhugahóps um örugga Reykjanesbraut, Guðmundur Hallvarðsson formaður samgöngunefndar, auk þingmanna kjördæmisins.
Fulltrúar áhugahópsins áttu fund með þingmönnum kjördæmisins í alþingishúsinu á föstudag þar sem farið var yfir stöðu mála. Að sögn Steinþórs Jónssonar var fundurinn góður og árangursríkur. „Það er greinilegt að þingmenn kjördæmisins hvar sem í flokki þeir standa, eru á einu máli um að tvöföldun sé forgagnsmál í samgöngumálum í kjördæminu. Á fundinum var farið yfir stöðu mála og það umhverfi sem við búum við í dag sem fundarmenn voru sammála um að væri mjög hagstætt hvað varðar tilboðsverð í stórverkefni sem þessar.
Á fundi fulltrúa áhugahópsins og þingmanna var einnig farið yfir dagskrá baráttufundarins sem haldinn verður í Stapa. „Hver flokkur mun tilnefna sinn fulltrúa á fundinn til að sitja fyrir svörum á pallborði.“
Aðspurður um hvort Steinþór væri bjartsýnn á að tvöföldun ljúki á þessu ári sagði hann svo vera. „Ég hef enga ástæðu til annars en að vera bjartsýnn. Samgönguráðherra hefur ítrekað kallað eftir samstöðu þingmanna í kjördæminu og hún er greinilega til staðar eins og vonandi kemur fram á borgarafundinum. Ytri aðstæður eru með besta móti og við teljum þetta vera lokatækifæri samgönguráðherra til að ljúka málinu á þeim jákvæðu nótum sem hann hefur unnið með málinu hingað til. Ef Suðurnesjamenn standa saman eins og þeir gerðu á borgarafundinum árið 2001 og fylla húsið, þá mun enginn, hvorki þingmaður né samgönguráðherra ganga út úr húsi nema með loforð um farsælan endi.“