Greina ítarlega kosti og galla ungbarnaleikskóla og ungbarnadeilda
Leikskólavist fyrir börn yngri en 24 mánaða var til umræðu á síðasta fundi fræðsluráðs Reykjanesbæjar. Ráðið vill að fjármagn (fyrir húsnæði og rekstur) verði tryggt til stækkunar Hjallatúns auk eins leikskóla í Keflavíkurhverfinu, sem fræðslusvið gerir tillögu um, fyrir fjárhagsáætlunargerð ársins 2021. Einnig er það lagt til í fræðsluráði að leikskólinn Völlur á Ásbrú nýti allt sitt húsnæði og að fjármagn verði tryggt í endurbætur á húsnæðinu ef þörf er á.
Í tengslum við minnisblað hagdeildar Reykjanesbæjar um ungbarnaleikskóla í Reykjanesbæ felur fræðsluráð leikskólafulltrúa að undirbúa erindisbréf fyrir faghóp sem hefur það að markmiði að greina ítarlega kosti og galla annars vegar ungbarnaleikskóla og hins vegar að setja á stofn ungbarnadeildir í núverandi leikskólum. í fundargerð fræðsluráðs segir að erindisbréfið skuli lagt fyrir næsta fund fræðsluráðs.