Greiðslufall náist ekki samkomulag um niðurfellingu skulda
„Það er engin launung að stærsti kröfuhafinn er vegna eignarhaldsfélagsins Fasteignar. Það er að segja leiguskuldbindingar sem telja vel á annan tug milljarða króna,“ segir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, í viðtali í hádegisfréttum RUV.
Reykjanesbær sendi tilkynningu til kauphallarinnar í morgun þar sem segir að náist ekki samkomulag um niðurfellingu skulda Reykjanesbæjar komi til greiðslufalls hjá sveitarfélaginu.
Fjárhagsstaða Reykjanesbæjar hefur lengi verið erfið. Sveitarfélagið skuldar um 40 milljarða króna eða um 240 prósent af tekjum sínum, sem er langt umfram lögbundið hámark og hæsta skuldahlutfall á landinu.
Eiga í viðræðum við kröfuhafa
Í tilkynningu Reykjanesbæjar til kauphallarinnar í morgun segir að bæjaryfirvöld eigi í viðræðum við kröfuhafa um endurskipulagningu skuldbindinga. Ef viðræðurnar bera ekki árangur geti komið til greiðslufalls á skuldbindingum bæjarfélagsins í framtíðinni. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir að einn liður í áætlun bæjarins, sem gengur undir nafninu Sóknin, sé að ná samkomulagi við kröfuhafa um niðurfellingu skulda. Þar sem sveitarfélagið sé með skuldabréfaflokk skráðan í Kauphöll hafi honum borið að tilkynna um að viðræður við kröfuhafa séu hafnar. „Og ef að þær leiða ekki til árangurs sjáum við fyrir okkur að á næstu árum gæti staðan einfaldlega orðið sú að til greiðslufalls kæmi. Það er að segja að við gætum ekki greitt af okkar skuldbindingum,“ segir Kjartan.
Sjá frétt RUV.