Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Grænir umhverfisvænir malbikaðir göngustígar
Mynd: Róbert Ragnarsson bæjarstjóri og Sigþór Sigurðsson framkvæmdastjóri Hlaðbær-Colas hf. sem skrifuðu undir samninginn sögulega í morgun. Heimasíða Grindavíkur greinir frá.
Föstudagur 27. júlí 2012 kl. 16:51

Grænir umhverfisvænir malbikaðir göngustígar

Í morgun skrifaði Grindavíkurbær undir samning við Malbikunarstöðina Hlaðbær-Colas hf. um malbikun á göngustígum víða í Grindavík. Samningurinn markar tímamót í malbikun á Íslandi því í fyrsta skipti verður lagt „grænt" umhverfisvænna malbik á stígana en um endurvinnslu eldra malbiks er að ræða en það dregur verulega úr hráefnisnotkun og sparar flutningskostnað. Auk þess er það talsvert ódýrara. 

Malbikunarstöðin Hlaðbær-Colas hf. hefur verið að þróa sig áfram í endurvinnslu malbiks en þetta hefur verið gert víða, m.a. á hinum Norðurlöndunum undanfarin ár og er reynsla af endurvinnunni góð.

Mikið átak er nú í göngustígagerð í Grindavíkurbæ. Græna umhverfisvæna malbikið verður notað á göngustíga sem liggja frá Grindavík og langleiðina í Bláa lónið. Jafnframt við höfnina og með Austurvegi, frá tjaldsvæðinu og að Þórkötlustaðahverfi. Um 7 km verða lagðir með þessu nýja og umhverfisvæna malbiki í þessum áfanga. Rétt er að taka fram til að forðast misskilning að þrátt fyrir að malbikið sé umhverfisvænna er það ekki grænt á litinn! 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Ég fagna því að Grindavík skuli vera fyrsta bæjarfélagið sem er svo framsýnt og umhverfisvænt að leggja „grænt“ malbik á nýju göngustígana," segir Sigþór Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hlaðbær-Colas hf.

„Grindavík er matmælavinnslu- og ferðamannabær með sjálfbærni og umhverfisvernd að leiðarljósi. Þegar okkur var kynntur þessi möguleiki á endurunnu malbiki var það algjörlega í takt við okkar framtíðarsýn," segir Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri

Efnið er kallað kaldblandað malbik með 100% endurunnu efni og er blandað með bikþeytu sem er umhverfisvæn blanda af stungubiki og vatni. Við blöndun og vinnslu brotnar vatnið frá bikinu og gufar upp og eftir verður malbiksmassi sem er áþekkur venjulegu malbiki. Sambærileg vara var fyrst þróuð hjá Colas í Sviss en MHC hefur aðlagað vöruna að íslenskum aðstæðum. Sannarlega er hægt að kalla þetta „grænt" malbik.

Þess má geta að Vegagerðin hefur einnig ákveðið að kaupa þetta efni og verður það lagt á kafla á Krísuvíkurvegi síðar í sumar.