Græna lónið vinnur gegn öldrun húðarinnar
Þörungurinn sem nú hefur gert Bláa lónið fagurgrænt hefur áhugaverða eiginleika og vinnur gegn öldrun húðarinnar. Þetta kemur fram í nýjum vísindarannsóknum. Bæði kísillinn og þörungurinn eru lykilefnin í Blue Lagoon húðvörum.
Bláa lónið er að jafnaði blátt vegna endurkasts ljóss frá örsmáum kísilsvifögnum í jarðsjónum. Um er að ræða sambærilegt endurkast svifagna og í lofthjúpi jarðar sem gerir himininn bláan. Ein af einkennislífverum jarðsjávarins er Bláalónsþörungur og á sólríkum sumardögum eru vaxtarskilyrði í hámarki og tekur þá grænn litur þörungsins yfir bláan lit lónsins. Það hefur þörungurinn svo sannarlega gert síðustu daga og komið Bláa lóninu í fréttir fyrir það að skipta um lit en lónið er nú fagurgrænt, eins og fram hefur komið m.a. hér á vf.is
Mynd: Bláa lónið er fagurgrænt þessa dagana eins og sést vel á meðfylgjandi ljósmynd. Ljósmynd: Hilmar Bragi Bárðarson