Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Fimmtudagur 25. febrúar 1999 kl. 18:06

GRÆÐGI, VANKUNNÁTTA OG KÆRULEYSI SÖKKTU BÁTUNUM

„Skipstjóri sagðist taka meira mark á eigin reynslu til sjós en einhverju sem væri skráð á blað...“ „Skipstjóri sagðist hafa lesið eitthvað af „doðranti“ um stöðugleika fyrir bátinn en hann væri ekki á mannamáli og hafi hann fleygt honum upp í hillu“ Skipstjórar Særúnar GK-64 og Gauja Gísla GK-103 eru sekir um vítaverða ofhleðslu og vanþekkingu á stöðugleika bátanna skv. nýútkominni skýrslu Rannsóknarnefndar sjóslysa fyrir árið 1995 og þannig ábyrgir fyrir bátstöpunum. Særún GK-64 sökk á leið til Grindavíkur þann 27. mars 1995 og Gaui Gísla GK-103 hvolfdi á sömu slóðum á sama tíma eftir að hafa reynt að aðstoða Særúnu. Bátarnir voru báðir ofhlaðnir, lentu í árekstri innbyrðis auk þess sem Eyjólfur Ólafsson NK-9 rakst á Særúnu er verið var að færa afla á milli bátanna. Öllum var bjargað um borð í Farsæl GK-162. Í skýrslu rannsóknarnefndarinnar kemur fram að Særúnin var gróflega ofhlaðinn um a.m.k 3 tonn, sjór komst í olíugeyma bátsins (vélin stöðvaðist) án þess að kannað væri hvers vegna og að skipstjóri hafði ekki kynnt sér stöðugleikagögn bátsins. Orðrétt segir í skýrslunni „Skipstjóri sagðist taka meira mark á eigin reynslu til sjós en einhverju sem væri skráð á blað. Kynnti hann sér stöðugleikagögn fyrir systurskip eftir slysið og sagðist þurfa að fara til sérfræðings til þess að fá skýrsluna túlkaða.“ Gaui Gísla var á leið til hafnar með 5 til 5,5 tonna afla þegar ákveðið var að reyna að draga hina vélarvana Særúnu. Eftir að tvisvar slitnaði á milli opnaði skipstjóri boxalúgu (sem ekki má opna utan hafnar) til að ná tóg. Særúnu er síðan sleppt er skipstjóra finnst báturinn orðinn einkennilegur í hreyfingum en hann hvolfir skömmu eftir að skorið var á milli bátana. Skv. skýrslu rannsóknarnefndarinnar var ekki tilkynningarskyldu ekki sinnt, búnaður var tekinn úr bátnum þrátt fyrir bann á slíku á meðan á rannsókn stóð, skipverjar höfðu ekki sótt námskeið slysavarnarskólans og áttu í erfiðleikum með neyðarbúnað, skipt var um vél, flottanki og andveltiuggum bætt við án þess að óskað væri endurskoðunar á stöðugleika, boxalok í þilfari lokaðist ekki sem skyldi og sjór streymdi óhindraður niður í skutrými bátsins. Að auki var leyfileg heildarþyngd veiðarfæra, vista og afla 2,5 til 3,0 tonnum meiri en leyfilegt var og skipstjóri hafði ekki kynnt sér stöðuleikagögn bátsins. Orðrétt segir í skýrslunni „Skipstjóri sagðist hafa lesið eitthvað af „doðranti“ um stöðugleika fyrir bátinn en hann væri ekki á mannamáli og hafi hann fleygt honum upp í hillu.“ Engin endurkrafa á hendur skipstjórunum Báðir bátarnir voru tryggðir hjá Samábyrgð íslenskra fiskiskipa sem ekki gerir endurkröfu á hendur skipstjórunum tveimur. Sigurður Jónsson, deildarstjóri tjónadeildar, sagði upplýsingar í skýrslu rannsóknarnefndarinnar hafa komið fram við sjópróf hjá Héraðsdómi Reykjaness. Hann sagði sönnunarbyrði tryggingarfélagsins afar ríka og í þessum tilfellum hefðu margir þættir átt hlut í að svona fór. Hann sagði að í máli Særúnar hefði það verið niðurstaða félagsins að frumorsök slyssins hefði verið áreksturinn við Eyjólf Ólafsson NK-9 og að í tilviki Gauja Gísla hefði lekinn á lúgunni verið talinn frumorsök óhappsins og samþykki lægi fyrir því að frágangur á dekki væri ófullkominn frá verksmiðjunnar hendi. Það hefði því verið niðurstaða Samábyrgðar íslenskra fiskiskipa að ósannanlegt væri að vankunnátta og ofhleðsla hefðu verið frumorsakir slysanna. Aðspurður um þá staðreynd að skipstjórar beggja bátanna höfðu ekki kynnt sér stöðuleikagögn bátanna sagði Sigurður. „Framsetning stöðugleikagagna er ekki auðveld yfirlestrar og erfitt að lesa úr gögnunum. Þeir sjómenn sem litla menntun hafa eiga í miklum erfiðleikum með að átta sig á þessum gögnum.“ Réttindaleysi og gáleysi halda ekki fyrir dómi Kristján Guðmundsson, framkvæmdastjóri Rannsóknarnefndar sjóslysa sagði ákvörðun Samábyrgðar íslenskra fiskiskipta ekki koma sér á óvart. Hann sagði að skv. sinni bestu vitneskju lægi ekki fyrir einn einasti dómur þar sem viðurlögum er beitt vegna réttindarlausra skipstjórnarmanna eða vegna slysa eða bátstapa sem rekja mætti til gáleysis eða vankunnáttu þeirra. Hann sagði endurkröfuheimildir tryggingarskilmála, að því er virtist, ekki halda fyrir dómi.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024