Götumyndin í Staðarsundi mikið breytt
Myndir úr Grindavík eftir hamfarir síðustu daga
Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík birti í gærkvöldi áhrifamiklar myndir úr bænum með samantekt um helstu verkefni björgunarsveitarmanna- og kvenna síðustu daga. Þar kemur fram að síðustu dagar hafa verið annasamir eins og svo oft áður.
„Við, ásamt Slökkviliði Grindavíkur, höfum komið á hverjum degi til Grindavíkur til þess að sinna ýmsum verkefnum og reyna að halda hjólunum gangandi. Stærsta verkefnið hefur verið að koma hita á hús með ýmsum hætti en við höfum líka unnið við að tryggja öryggi þeirra sem þurfa að komast um bæinn, eins og t.d. þeirra pípara sem hér hafa verið að störfum,“ segir í pistlinum.
Sagt er frá því að í gær fylltist allt af snjó sem gerir hlutina ennþá erfiðari og áfram er unnið í kapphlaupi við tímann um að koma hita á húsin í bænum.
Þá segir að staðan í bænum sjálfum eftir atburði síðustu daga er þessi:
Gossprungan sjálf liggur milli Efrahóps og Norðurhóps, undir Hópið og alveg niður á höfn í gegnum Austurveg, Mánagötu og Hafnargötu. Þessi sprunga myndaðist 10. nóvember sl. en á sunnudaginn gliðnaði hún enn frekar með tilheyrandi skemmdum eins má sjá á Hópinu.
Mestu sjáanlegu breytingarnar eru á svæðinu austan við þessa sprungu. Til dæmis er mesta gliðnunin í Staðarsundi og er óhætt að segja að götumyndin sé mikið breytt þar. Sprungan undir Víðihlíð gliðnaði einnig töluvert.
Björgunarsveitarfólk hefur ekki rekist á neinar nýjar sprungur í bænum, eingöngu séð eldri sprungur sem hafa stækkað.
Vestan við gossprunguna sjást litlar sem engar breytingar á yfirborði. Eins og í nóvember þá fer björgunarsveitin á hverjum morgni um götur bæjarins til að kanna hvort einhverjar breytingar séu á milli daga og telur Björgunarsveitin Þorbjörn sig því hafa nokkuð góða mynd af stöðunni.
„Við munum halda áfram þessari vinnu næstu daga eða eins lengi og þarf,“ segir að lokum í færslunni.
Sprungumyndun í gatnakerfinu.
Eins og sjá má á þakinu á knattspyrnuhúsinu Hópinu þá hefur eitthvað gengið á í náttúrunni.
Gliðnunin er vel sýnileg í iðnaðarhverfinu í Grindavík.
Við hraunröndina í Efrahópi.
Gatnakerfið er víða laskað eftir átök síðustu daga og vikna.
Snjómokstur á Víkurbraut í Grindavík.
Þorbjörn hefur öflugan bílaflota til að koma mannskapnum í gegnum skaflana.