Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gott hljóð í kaupmönnum
Miðvikudagur 23. desember 2009 kl. 12:00

Gott hljóð í kaupmönnum


Hljóðið er almennt nokkuð gott í kaupmönnum á Suðurnesjum þegar þeir eru spurðir út í gang jólaverslunarinnar. Flestir eru sammála um að kauphegðum fólks hafi breyst þó verslun hafi í sjálfu sér ekki dregist saman á milli ára.

„Það hefur gengið alveg þokkalega. Við sjáum lítillega breyttar áherslur í innkaupum hjá fólki, þau eru markvissari og minna um óhóf eins og var . Annars eru þetta bara fín „kaupmannsjól“ að okkar mati. Það var mikil bót að setja Nettó hérna í húsið og hafði mikið að segja. Þetta var greinilega það sem fólkið vildi þannig að við erum mjög ánægðir,“ sagði Stefán Guðjónsson, forstöðumaður innkaupa- og markaðssviðs Nettó og Samkaupa, í samtali við VF nú fyrir hádegið.

Kristín Kristjánsdóttir í versluninni Kóda tekur í svipaðan streng. „Við erum mjög glaðar og sérstaklega þakklátar með móttökurnar í barnabúðinni okkar,“ segir Kristín.  Hún segir jólaverslunina  hafa aukist mikið á milli ára, samanborið við jólin í fyrra. „Ég verð bara vör við notalegheit, svona eins og fólk sé samtaka í því að halda öllu gangandi þó illa ári efnahagslega. Það er minna stress í fólki og það gefur sér meiri tíma í að velta hlutunum fyrir sér. Þá er líka ánægjulegt að sjá hvað við erum að fá mikið af viðskiptavinum úr Reykjavík, sem hafa séð að það er bara miklu rólegra, notalegra og ódýrara að versla á minni stöðum,“ sagði Kristín ennfremur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024