Gott gengi Suðurnesjaliðanna
Staða knattspyrnuliðanna á Suðurnesjunum er ágæt og eins gengur okkar mönnum í torfærunni vel. Góður Reynissigur Reynismenn unnu mikilvægan sigur baráttunni um sæti í úrslitum þriðju deildar karla í knattspyrnu sl. föstudag þegar þeir lögðu ÍH að velli í Sandgerði með 5 mörkum gegn 1.Gestirnir skorðuð eina mark fyrri hálfleiks og voru yfir 1-0 þegar blásið var til þess síðari. Reynismenn tóku heldur betur við sér í seinni hálfleiknum og skoruðu 5 mörk. Ari Gylfason skoraði 3, Bjarki Dagsson 1 og Guðmundur Skúlason 1. Á síðustu mínútu leiksins varði Eyþór Örn Haraldsson varamarkvörður Reynis vítaspyrnu á glæsilegan hátt.Reynismenn sitja nú í öðru sæti B-riðils þriðju deildar með 18 stig, jafnt og Haukar sem eru með eins marks forystu í efsta sætinu og eiga leik til góða.Þrenna hjá SnorraNjarðvíkingar eru nú með 7 stiga forystu í A-riðli 3.deildar eftir 7-0 sigur á liði Bruna, sem er í öðru sæti riðilsins. Yfirburðir Njarðvíkurliðsins voru algjörir og sýndu þeir frábæra takta í stórskemmtilegum leik sl. föstudag. Snorri Már Jónsson kom með frábærum hætti inn í liðið og setti þrennu í sínum fyrsta leik, Sævar Eyjólfsson skoraði 2 mörk, Óskar Haukson skoraði 1 og eitt markið var sjálfsmark. Njarðvíkingar eru með 26 stig, Bruni sem eru í öðru sæti er með 19 stig , Fjölnir og HSH eru jöfn í þriðja sæti með 16. Nú fyrir stuttu var Óskar Örn Hauksson leikmaður mfl. Njarðvíkur valinn í 16 ára landslið íslands sem tekur þátt í Norðurlandamótinu.Víðir í fjórða sætiVíðir Garði er í fjórða sæti annarrar deildar karla í knattspyrnu með sautján stig að 10 umferðum loknum. Víðismenn léku gegn Leikni, sem er í 7. sæti deildarinnar sl. fimmtudag og gerðu liðin jafntefli 1-1. Mark Víðismanna skoraði Bergur Eggertsson. Fimm gul spjöld fóru á loft í leiknum, þar af þrjú til Víðismanna. Tveir í landsliðinuTveir leikmenn af Suðurnesjum hafa verið valdir í íslenska landsliðið sem mætir Möltu á Laugardalsvelli í kvöld kl. 20.00. Gunnleifur Gunnleifsson, markvörður Keflvíkinga og Ólafur Örn Bjarnason frá Grindavík, eru í landsliðshópi Atla Eðvaldssonar að þessu sinni. Ólafur Örn hefur þrisvar sinnum áður verið í landsliðinu, en Gunnleifur er að stíga sín fyrstu spor á þeim vettvangi. Gunnar efsturUm síðustu helgi fór fram fjórða stigamót sumarsins í torfæru og gaf það stig bæði í Íslands- og heimsbikarmótunum. Suðurnesjamaðurinn Gunnar Gunnarsson, vann flokk götubíla og er efstur að stigum á Íslandsmótinu, en deilir efsta sætinu í heimsbikarmótinu með Ásgeiri Jamil Allanssyni. Tveir aðrir Suðurnesjamenn kepptu á mótinu um síðustu helgi, en það eru þeir Páll Antonsson og Gunnar Ásgeirsson og keppa þeir báðir í flokki sérútbúinna bíla. Þeir komust ekki á verðlaunapall en enduðu um miðjan hóp.