Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gott ár fyrir Grindavíkurhöfn
Miðvikudagur 13. janúar 2016 kl. 10:58

Gott ár fyrir Grindavíkurhöfn

Árið 2015 var býsna gott ár fyrir Grindavíkurhöfn þrátt fyrir miklar brælur það árið. Heildarafli sem barst á land í Grindavíkurhöfn 2015 var um 43.400 tonn. Það er mesta löndun á einu ári síðan 2008 og munar þar um 10.000 tonnum. Á árunum 2004 til og með 2007 var landaður afli töluvert meiri, en þá var loðnulöndun umtalsverð. Loðnu hefur ekki verið landað í Grindavík síðan 2007. Frá árinu 2008 hafa landanir þrátt fyrir það aukist jafnt og þétt.

Þetta kemur fram í samantekt Sigurðar A. Kristmundssonar, hafnarstjóra í Grindavík, fyrir vefinn kvotinn.is og segist hann ánægður með gang mála. Ástæða aukinna landana er fyrst og fremst sú, að bátarnir frá Vísi lönduðu 35% meira í heimahöfn í fyrra en árið áður og skýrist það af því að öll vinnsla fyrirtækisins hefur nú verið færð til Grindavíkur, þó bátarnir landi áfram einhverju af afla sínum úti á landi og flytji hann síðan suður til vinnslu.

Þá hafa bátar Skinneyjar-Þinganess á Höfn í Hornafirði landað töluverðu á síðasta ári í Grindavík og sömuleiðis línubáturinn Anna EA. Þá er þróunin sú að botnsfiskur er aukið hlutfall af lönduðum fiski en landanir á ódýrari fiski eins og makríl hafa dregist saman og eykur það tekjur hafnarinnar og bætir afkomuna umfram það sem ráð hafði verð gert fyrir að sögn Sigurðar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024