Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gosið í hálft ár og orðið það langlífasta á öldinni
Föstudagur 24. september 2021 kl. 07:05

Gosið í hálft ár og orðið það langlífasta á öldinni

Eldgosið í Fagradalsfjalli hefur staðið yfir í hálft ár en það hófst að kvöldi 19. mars. Í síðustu viku, skömmu fyrir hálfs árs afmælið, náði það einnig þeim áfanga að vera langlífasta eldgos á 21. öldinni þegar það hafði staðið í 181 sólarhring. Eldra met átti eldgosið í Holuhrauni sem stóð í 180 daga.

Skipta má gosinu í Fagradalsfjalli í fjögur tímabil:

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Fyrsta tímabilið stóð í um tvær vikur og einkenndist af fremur stöðugu hraunrennsli, að meðaltali um sex rúmmetrar á sekúndu.   

Annað tímabilið, sem einnig stóð í tvær vikur, einkenndist af opnun nýrra gosopa norðan við upphaflegu gígana. Hraunrennsli var nokkuð breytilegt, á bilinu fimm til átta rúmmetrar á sekúndu. Eftir þetta tímabil hefur virknin verið öll í einum gíg.

Þriðja tímabilið stóð í tvo og hálfan mánuð og endaði í lok júní. Hraunrennsli var lengst af nokkuð stöðugt, um tólf rúmmetrar á sekúndu. Hraun rann ýmist í Geldingadali, Meradali eða Nátthaga. 

Fjórða tímabilið hófst í lok júní. Það einkennist af hviðukenndri virkni. Hraunrennsli virðist hafa sveiflast töluvert á þessu tímabili en hefur að meðaltali verið átta til ellefu rúmmetrar á sekúndu og lækkaði heldur frá lokum júní til loka ágúst.

Á vef Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands segir að rétt er að taka fram að mælingarnar sýna rúmmál og breytingar á því. Eðlismassi hrauns getur verið breytilegur og á það hefur verið bent að t.d. næst gígum sé holrými meira en fjær. Ekki er gerð tilraun til að meta þessi áhrif hér, að finna jafngilt rúmmál þétt bergs eða massa hraunsins. Algengt mat er að rúmmál þétt bergs sé um 80% af heildarrúmmáli og er sennilegt að svipað eigi við um hraunið í Meradölum, Geldingadölum og Nátthaga, að holrými sé meira næst gígnum.

„Gosið í Fagradalsfjalli er um margt frábrugðið þeim gosum sem við höfum orðið vitni að undanfarna áratugi. Flest gosin hafa átt upptök í kvikuhólfum undir megineldstöðvum þar sem þrýstingur í hólfinu og stærð þess virðist ráða mestu um stærð og lengd goss. Í Fagradalsfjalli er hins vegar svo að sjá að aðstreymisæðin og eiginleikar hennar ráði mestu um kvikuflæðið. Rásin sem opnaðist var tiltölulega þröng og löng (nær niður á ~17 km dýpi) og flutningsgetan takmörkuð. Aukning í hraunflæði með tíma fyrstu sex vikurnar bendir til þess að rásin hafi víkkað heldur með tímanum, sennilega vegna rofs í veggjum hennar. Hegðunin frá í lok júní er mjög athyglisverð. Heldur dró úr fyrri hluta júlí en hraunflæðið jókst aftur samfara því að regla komst á hviðuvirknina um miðjan mánuðinn. Frá lokum júlí og fram í september var heldur minna hraunflæði en þegar mest var. Of snemmt er að segja til um hvort þessi þróun hefur snúist við. Engin leið er að spá fyrir um goslok út frá hegðuninni hingað til,“ segir Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.