Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gosið dregur sig saman í fimm gosop
Skjáskot úr vefmyndavél mbl.is
Þriðjudagur 19. desember 2023 kl. 12:39

Gosið dregur sig saman í fimm gosop

Áfram dregur úr krafti eldgossins við Sundhnúksgíga. Hraunflæði er gróflega áætlað um ¼ af því sem það var í byrjun og er þriðjungur upphaflegu sprungunnar virkur. Kvikustrókar eru einnig lægri en í byrjun goss, um það bil 30 metrar þar sem þeir ná hæst. Þessar tölur eru sjónrænt mat úr könnunarflugi, annað mælingaflug er á áætlun kl. 13 í dag þar sem skýrari mynd fæst af þróun virkninnar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands.

Þróun gossins svipar til eldgosa við Fagradalsfjall þar sem gossprungurnar eru byrjaðar að draga sig saman og mynda stök gosop. Á þessum tímapunkti eru um fimm gosop sem eru dreifð eftir upphaflegu sprungunni. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samkvæmt upplýsingum vísindafólks sem fór í seinna þyrluflug Landhelgisgæslunnar um kl. 4:00 í nótt hafði heildarlengd gossprungusvæðisins ekki breyst mikið frá því í upphafi. Lítil virkni var við suðurenda sprungunnar við Hagafell og mesta hraunrennslið leitar í austur í átt að Fagradalsfjalli. Tveir taumar ná í vestur, báðir norðan við Stóra-Skógfell.

Í dag berst gosmökkurinn undan vestan og norðvestan átt. Gasmengunar gæti orðið vart í Vestmannaeyjum í dag, en ekki annars staðar í byggð. Samkvæmt veðurspá gæti gasmengunar orðið vart á höfuðborgarsvæðinu seint í nótt eða í fyrramálið.

Verið er að vinna nýtt hættumatskort og verður það gefið út síðar í dag.