Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Fréttir

Gos í Móhálsdal yrði svipað gosinu á Fimmvörðuhálsi
Föstudagur 16. september 2011 kl. 12:20

Gos í Móhálsdal yrði svipað gosinu á Fimmvörðuhálsi

Jarðvísindamenn fylgjast grannt með svæðinu í kringum Sveifluháls í Krýsuvík, en þar hefur landið risið um 7 sentímetra undanfarna 16 mánuði. Miklar jarðhræringar hafa verið á svæðinu. Hugsanlega merki um kvikusöfnun, segir sérfræðingur í samtali við Pressuna í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Mörg hundruð ár er síðan síðast var eldgos á þessu svæði, en miklar jarðhræringar undanfarið hafa orðið til þess að vísindamenn hafa gefið þessu svæði meiri gaum. GPS mælingar sýna að land við Sveifluháls hefur risið um 7 sentímetra síðan í maí í fyrra og rannsaka vísindamenn nú hvað veldur.

„Það er möguleiki að þarna sé kvika, en það er líka möguleiki að það sé gas sem er að valda þessu risi. Það varð ris þarna í ársbyrjun 2009 sem stóð fram á haust sama ár, en síðan gekk það til baka“, segir Sigrún Hreinsdóttir, dósent í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands á pressan.is. Hún bendir á að samfelldar mælingar hafi ekki hafist á svæðinu fyrr en árið 2007 og því sé erfitt að segja með vissu til um þróunina.

„Reykjanesskagi gengur í gegnum tímabil kvikuvirkni. Það er búið að vera hlé í nokkur hundruð ár og þetta gæti verið vísirinn að nýju kvikutímabili“.

Sigrún segir að mikla skjálftavirkni á svæðinu undanfarið megi rekja til samblöndu þessa landriss og flekahreyfinga. Ef svo fer að það fer að gjósa á svæðinu telur Sigrún að um minni háttar gos yrði að ræða.

„Ef það myndi gjósa Krýsuvíkurmegin, þá yrði þetta væntanlega lítið gos sem tæki snöggt af. Ef hins vegar það myndi gjósa í Móhálsdal, þá gætum við verið að horfa upp á sambærilegt gos og í Fimmvörðuhálsi“.

Á sama tíma og þessar jarðhræringar eiga sér stað, hefur vatnsyfirborð í Kleifarvatni lækkað mjög og beinast rannsóknir meðal annars að því hvort að þessir tveir atburðir tengjast.

„Vatnsyfirborðið lækkaði síðast á svipaðan hátt eftir Suðurlandsskjálftann árið 2000. Það er spurning hvort þessir atburðir núna séu tengdir“.

Pressan.is



Ljósmyndir frá gosinu á Fimmvörðuhálsi: Ellert Grétarsson