Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Gos gæti staðið í 1-2 vikur en hefði lítil áhrif
https://www.iceland360vr.com/panorama/fagradalsfjall/
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 3. mars 2021 kl. 17:00

Gos gæti staðið í 1-2 vikur en hefði lítil áhrif

Komi til goss suður af Keili er litlar líkur á að það myndi ógna byggð og að fólk þurfi ekki að hafa áhyggjur. Gos gæti hafist á næstu klukkustundum eða næstu dögum. Það gæti staðið yfir í 1-2 vikur og myndi hafa lítil áhrif. Lögreglan er við afleggjara að Keili og hefur lokað svæðinu fyrir almenningi. Þetta kom fram á fréttamannafundi Almannavarna nú síðdegis.

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnasviðs ríkislögreglustjóra sagði að það sem helst þyrfti að hafa í huga er hugsanleg gasmengun sem yrði nálægt gosinu og því er fólk beðið að halda sig fjarri. „Biðjum alla að slaka á. Ekkert að sjá í augnablikinu og engar hamfarir,“ sagði Víðir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Kristín Jónsdóttir, fagstjóri náttúruvár hjá Veðurstofu Íslands sagði að sigdæld hafi myndast suður af Keili við Litla Hrút en þó ekki sprungur. Að kvika sé komin nær yfirborði er helsta tilgátan. Virkni fór að ágerast um tuttugu mínútur yfir tvö, litlir skjálftar sem urðu að samfelldri hrinu, svokallaður óróapúls. Þyrla var send yfir svæðið en ekkert sást. Kvika er að brjóta sér leið og það er breyting frá því sem hefur sést. Þetta er um 5 km. langur kvikugangur, um 1,5 metri á breidd.

„Þetta kemur mér pínulítið á óvart. Ef til goss kemur erum að tala um hraungos, hættulítið,“ sagði Kristín.

Verði gos mun það ekki hafa áhrif á flug en þó er gult viðbúnaðarstig og fer í rautt fari að gjósa.

Raflínur eru líklega ekki í hættu. Starfsmenn Landsnets fylgjast með framvindu á Reykjanesi og hafa farið yfir viðbragðsáætlanir. Einnig til hvaða fyrirbyggjandi ráðstafana væri hægt að grípa til komi til eldgoss sem gæti ógnað Suðurnesjalínu og afhendingaröryggi raforku á svæðinu.

https://www.iceland360vr.com/panorama/fagradalsfjall/