Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Góðverk kom hótelstjóranum í jólaskapið
Steinþór Jónsson á fullum snúning í Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
miðvikudaginn 21. desember 2022 kl. 13:30

Góðverk kom hótelstjóranum í jólaskapið

- Hjálpaði strandaglópum að fá húsaskjól í illviðri

„Síðustu dagar hafa verið krefjandi en það hefur á sama tíma verið mjög gaman að geta hjálpað fólki í neyð. Okkar markmið er að gera okkar besta í að leysa úr einhverjum hluta vandamálsins,“ segir Steinþór Jónsson, hótelstjóri Hótels Keflavíkur. Starfsmenn hótelsins hafa lagt sitt að mörkum síðustu daga í að hjálpa ferðamönnum sem urðu strandaglópar á flugstöðinni vegna veðurs. 

„Við vorum með fjórhjóladrifnar rútur og nýttum þær til að taka á móti gestum sem voru einhver hundruð. Síðan vorum við líka að sjá um gesti sem voru að fara á önnur hótel, sem tengjast okkur ekki, vegna veikinda eða því það var fólk með börn. Við „pikkuðum“ þau út úr röðinni og reyndum að hjálpa þeim. Við keyrum alltaf fólkið frá flugstöðinni niður á Hótel Keflavík og gefum því að borða á meðan við reynum að leysa úr þeirra vandamálum. Þá er hægt að taka fólk út af flugstöðinni, koma því í var og fólki líður strax betur að fá eitthvað að drekka og borða og vera í fallegu umhverfi og síðan skipulega spjöllum við við hvern fyrir sig og spyrjum hvert viðkomandi er að fara og reynum að leysa úr hans vandamálum,“ segir Steinþór en þegar leið á fékk hann aðstoð frá keflvískum „höfðingjum“, eins og Steinþór orðar það. „Ég fór bókstaflega út á götu og veifaði að stórum „monster“ trukkum en ég þekkti þessa menn ekkert fyrir og bað þá um að hjálpa mér að hjálpa fólki. Þessir miklu höfðingjar, komu og voru þarna allt kvöldið að hjálpa til. Þeir komu fólki meðal annars upp á Ásbrú sem átti gistingu þar. Við tókum ekkert fyrir þennan greiða því við vildum í raun bara sjá til þess að fólkið kæmist í rúmin sín.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leitar ávallt lausna

Steinþór segir þetta ekki vera í fyrsta skiptið sem aðstæður sem þessar koma upp en að þetta skiptið hafi þó verið aðeins frábrugðið. „Það hafa komið upp svona tilvik þar sem veður og annað hefur áhrif á þúsundir en á þessum 36 árum hefur það gerst ca. þrisvar, fjórum sinnum. Ef við horfum til áranna 1986 til 2010 þá voru ekki svona mörg flug til og frá landinu. Fjöldi ferðamanna er orðinn svo gríðarlega mikill, það eru kannski 50 flug fram og til baka í það minnsta. Þannig þegar eitthvað kemur í veg fyrir flug þá er þetta svo gríðarlegur fjöldi sem verður strand. Ég man eftir einu tilviki þarna 2019, þá gerðist það sama. Ég leita alltaf að lausnum og þær eru mismunandi í hvert skipti, því aðstæðurnar eru alltaf misjafnar. Þá fórum við með nokkur hundruð manns í Hljómahöll og veittum þeim gistingu, mat og drykk þar meðan við vorum að leysa úr þeirra málum og komum þeim svo áleiðis. Vandamálið í þetta skiptið var hve lengi Reykjanesbrautin var lokuð, það var það sem gerði útslagið. Við gátum ekki beðið í nokkrar klukkustundir og sent svo fólk til Reykjavíkur eða á viðeigandi stað. Við vorum bundin við svæðið í þetta skiptið.“ 

Jólaandinn tók yfir

„Fólk sem er í svona aðstæðum verður svo þakklátt ef einhver réttir hjálparhönd. Jólaandinn á alltaf að vera til staðar hjá okkur, við eigum að passa upp á náungann. Ég hugsa alltaf: Hvernig myndi ég vilja að fólk myndi bregðast við ef ég væri í þessum aðstæðum,“ segir Steinþór. Aðspurður hvort það sé eitthvað meira en jólaandinn sem fékk þau til að hjálpa þreyttu ferðalöngunum segir hann: „Við höfum verið að sjá um svona þjónustu í 36 ár, við lærðum það þegar við vorum ein með slíka þjónustu 1986 og það var enginn annar í því að fara að redda fólkinu nema við, því það voru engin hótel. Þetta hugarfar hefur fylgt okkur, við kunnum ekki að segja nei og viljum ekki segja nei. Þannig þegar svona aðstæður koma upp, finnst okkur það okkar skylda að gera okkar besta. Þetta eru okkar viðskiptavinir á góðum dögum og fólk sem vill vera hjá okkur, í glæsigistingu fyrir brottför eða þegar það kemur að utan. Þegar svona atvik kemur upp þá finnst okkur bara rétt að gera okkar besta því þarna er neyðin meiri en venjulega.“ 

Blaðamaður átti samtal við Steinþór miðvikudaginn 21. desember og sagði hann þakklæti vera ferðamönnunum efst í huga eftir óvissuna sem fylgdi veðurskilyrðunum. „Dagurinn í dag er búinn að vera yndislegur, fólk sem er að fara er svo þakklátt. Það kann svo vel að meta að allt okkar teymi, hvort sem það var þjónninn á veitingastaðnum, móttakan eða þeir sem voru uppfrá að sækja, lögðu sig fram við að gera aðeins betur en við þurftum að gera,“ segir Steinþór og bætir við að lokum: „Ég held ég gæti ekki verið í meira jólaskapi heldur en í dag eftir þetta, það er mjög gefandi að geta verið með aðstöðu til að geta hjálpað fólki.“