Góður rekstur Fríhafnarinnar - 98% starfsmanna frá Suðurnesjum
Umtalsverð aukning varð á rekstrartekjum Fríhafnarinnar á s.l. ári en veltan jókst um 13,23% á milli ára, var rétt rúmir 7 milljarðar króna, en farþegum um flugvöllinn fjölgaði um 12,7%. Mest varð aukningin í erlendum ferðamönnum en íslendingum fjölgaði um 3,4%. Aðalfundur félagsins var haldinn í gær.
Ríkissjóður fékk rúmum 12% meira til sín á árinu 2012 en árið á undan eða rétt tæpar 400 milljónir. Þar af eru áfengis- og tóbaksgjöld 307 milljónir króna að því er fram kemur í frétt frá Fríhöfninni.
Þær jákvæðu fréttir bárust á seinni hluta síðasta árs að atvinnuleysi á Suðurnesjum væri að dragast saman. Fríhöfnin fjölgaði stöðugildum sínum um rúm 9% milli ára, úr 113 í 124, en rúmlega 98% starfsmanna fyrirtækisins eru búsettir á Suðurnesjum.
Hagnaður fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) nam tæpum 238 milljónum króna, á móti 174 milljónum króna á árinu 2011.
Eftir afskriftir og fjármagnsliði var hagnaður félagsins 139,3 milljónir, samanborið við 84,6 milljónir króna árið 2011. Handbært fé í árslok var um 207 milljónir króna og heildareignir félagsins námu um 1.585 milljónum króna í árslok. Lausafjárstaðan er sterk og lausafjárhlutfallið er 96%. Skuldir voru 886 milljónir og eigið fé í lok ársins 699,2 milljónir. Eiginfjárhlutfall félagsins var 44,1% á árinu 2012 samanborið við 37% á árinu 2011. Veltufjárhlutfallið jókst úr 139% í 157%.
Margt sem stendur upp úr
Það er margt sem stendur upp úr á árinu 2012. Árið hófst með opnun Victoria‘s Secret í brottfararverslun. Þetta var þriðja verslunin á flugvelli í heiminum og hafa margir velt því fyrir sér hvers vegna þeir ákváðu að velja Ísland sem fyrsta áfangastað, þar sem hinar tvær verslanirnar opnuðu talsvert fyrr. Í dag skipta þessar verslanir tugum en starfsmenn Fríhafnarinnar hafa þótt standa sig afar vel í sölu til viðskiptavina.
Fyrir rétt tæpu ári síðan fór fram könnun á starfsskilyrðum og líðan starfsmanna sem eru félagsmenn í SFR á vinnustaðnum. Könnunin náði til um 44 þúsund starfsmanna á almennum og opinberum vinnumarkaði og er skemmst frá því að segja að Fríhöfnin varð í 4 sæti af 93 stórum stofnunum og fyrirtækjum á Íslandi þegar ánægja í starfi, stolt, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleiki og sjálfstæði í starfi, ímynd fyrirtækisins og trúverðugleiki stjórnenda var mælt. Fríhöfnin þótti vera til fyrirmyndar í þessum málum, þrátt fyrir að vera svokallað vaktavinnufyrirtæki. Eins var Fríhöfnin útnefnd, ásamt Isavia Fjölskylduvænt fyrirtæki, sem verður að teljast mjög góður árangur þar sem ekki er auðvelt að samræma svo vel sé stóran vinnustað sem er opinn 365 daga ársins, allan sólarhringinn við öfluga fjölskyldustefnu.
Í maí í fyrra hóf Fríhöfnin sölu á plastpokum og fóru 5 kr af hverjum seldum poka í nýjan Umhverfissjóð Fríhafnarinnar. Fyrstu styrkirnir voru veittir í fyrradag í fjölbreytt verkefni á sviði umhverfismála á nærsvæðum starfsstöðva Fríhafnarinnar. Alls voru veittir styrkir upp á rúma 1.5 milljónir króna.
Þar sem árið hófst á opnun Victoria‘s Secret, þar sem nær eingöngu er að finna vörur fyrir konur, þá fengu karlmenn eitthvað fyrir sig í lok ársins. Be A Man var opnað rétt fyrir jólin í fyrra og hafa karlmenn tekið þessari breytingu fegins hendi. Ferðalag þeirra um Fríhöfnina einfaldaðist til muna, enda allt á einum stað svo að segja. Nýr ilmur prófaður á meðan aðrar nýjungar eru smakkaðar.
Stóraukið samstarf á innanlandsmarkaði og vöruþróun
Varðandi samstarf á innanlandsmarkaði þá má segja að Fríhöfnin sé stöðugt að sækja í sig veðrið. Vörukaup innanlands aukast ár frá ári. Á síðast ári jukust innkaup við innlenda birgja um 28% á móti 6% aukningu við erlenda birgja.
Fríhöfnin hefur lagt mikla áherslu á að íslensk hönnun sé sýnileg í flugstöðinni sem og að markvisst hefur verið unnið að vöruþróun með íslenskum birgjum.
Til að nefna nokkur dæmi þá hefur ný brennivínshandbók litið dagsins ljós sem vakið hefur mikla athygli, bæði hér heima og erlendis.
Nýr bjór, Snorri, sem er alfarið unninn úr íslensku byggi var þróaður. Eins átti Fríhöfnin þátt í því að ný vodkategund var framleidd en Kötlu vodkinn kom á markað árið 2012 og hefur vakið verðskuldaða athygli. Úrvalið í vöruframboði Fríhafnarinnar hefur stóraukist á undanförnum árum, eitthvað sem ferðamenn hafa tekið vel eftir og má þar sérstaklega nefna viskí, en yfir 200 tegundir eru í boði. Yfir 52.000 lítrar seldust á s.l. ári.
Miklar breytingar framundan
Miklar breytingar og umbætur standa yfir hjá Fríhöfninni um þessar mundir og mun fyrirtækið ásamt verslunum fá nýja ásýnd í sumar. Um miðjan júní er fyrirhugað að opna nýja glæsilega verslun í suðurbyggingu flugstöðvarinnar, ásamt því að verið er að endurnýja komuverslunina sem er íslendingum að góðu kunn.
Stjórn félagsins var endurkjörin en hana skipa Þórólfur Árnason, Arnbjörg Sveinsdóttir, Bergur Sigurðsson, Ólafur Thordersen og Jónína Hólm.
Frá afhendingu umhverfisstyrkja Fríhafnarinnar fyrr í vikunni.