Góður nóvember hjá Happasæli KE
Nóvembermánuður var rysjóttur til sjósóknar á Suðurnesjum. Línubátarnir sem réru úr Sandgerði komust t.d. ekki til róðra í 6 daga, að því er fram kemur á fréttavef Gísla Reynissonar, www.aflafrettir.com
Netabátarnir úr Sandgerði hörkuðu sumir af sér veðrið og réru eins oft og þeir gátu. Þeirra á meðal var Happasæll KE sem réri mjög stíft og fór í samtals 25 róðra. Var þetta mesti róðrafjöldi allra báta í nóvember, að sögn aflafrétta.
Í þessum 25 róðrum fékk báturinn 37 tonn og var stærsti róðurinn 4,6 tonn. Happasæll var fyrir vikið aflahæsti smábáturin á netum í nóvember.